Erlent

Vopnahlé brotið í Súdan

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fjöldi fólks hefur þurft að yfirgefa landið, þar á meðal þessir Palestínumenn sem flúðu í gegnum Egyptaland.
Fjöldi fólks hefur þurft að yfirgefa landið, þar á meðal þessir Palestínumenn sem flúðu í gegnum Egyptaland. AP/Fatima Shbair

Átök í Súdan hófust aftur snemma í morgun eftir nokkurra daga vopnahlé. Heyra mátti sprengingar í höfuðborginni Khartoum og nærliggjandi borgum.

Á mánudaginn sömdu fylkingar stjórnarhers landsins og uppreisnasveita RSF um 72 klukkustunda vopnahlé. Var það gert svo hægt væri að koma almennum borgurum í landinu til aðstoðar. Það hlé var síðan framlengt um 72 klukkustundir í gær. 

Þykkur og dökkur reykur lá yfir hluta höfuðborgarinnar Khartoum Í morgun, þar sem greint hefur verið frá loftárásum og byssuskotum. Svipuð staða er uppi í nærliggjandi borgunum Bahri og Ombdurman, að því er segir í frétt Reuters, auk þess sem staðan er sögð sérstaklega slæm í El Geneina í vesturhluta landsins.

BBC hefur eftir Mohamed Hamdan Dagalo, leiðtoga RSF, að hans menn hafi verið stanslaust undir árásum hersins síðan vopnahléið hófst. Þeir muni því ekki semja um annað hlé þar til herinn hættir að skjóta. 

Reuters greinir frá því að hundruð manna hafi verið drepin á síðustu tveimur vikum í Súdan og hafa tugir þúsunda manna yfirgefið heimili sín. Milljónir manna eru sagðir fastir á svæðum þar sem skortur er á matvælum og eldsneyti. Stjórnvöld í þó nokkrum ríkjum hafa unnið að því að bjarga ríkisborgurum sínum frá Súdan, þar á meðal Frakkland, Þýskaland og Bretland.


Tengdar fréttir

Vopnahlé í Súdan

Stríðandi fylkingar í Súdan féllust í dag á málamiðlun Bandaríkjanna um 72 tíma vopnahlé til að hægt sé að koma almennum borgurum í Súdan til aðstoðar. Vopnahléð hófst á miðnætti að staðartíma.

Súdanski herinn sagður hafa rofið vopna­hlé

Vígasveitir RSF segja súdanska stjórnarherinn hafa rofið vopnahlé sem samþykkt var seint í gærkvöldi. Skothvellir hafa heyrst í höfuðborginni Khartoum og í Omdurman í dag. Bresk stjórnvöld hafa biðlað til ríkisborgara sinna að halda þegar í stað á flugvöll norður af höfuðborginni þaðan sem þeim verður flogið beinustu leið til Kýpur og svo Bretlands. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×