Umfjöllun og viðtöl: FH - KR 3-0 | Ósigrandi á Miðvellinum

Dagur Lárusson skrifar
FH-ingar fagna marki Kjartans Henry í upphafi leiks.
FH-ingar fagna marki Kjartans Henry í upphafi leiks. Vísir/Diego

FH valtaði fyrir KR á gulum Miðvellinum í 4. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Kjartan Henry Finnbogason reyndist sínum gömlu félögum en skoraði tvö mörk. Það fyrra einkar glæsileg bakfallsspyrna og það síðara einföld afgreiðsla af stuttu færi.

Ægir Jarl Jónasson fékk dauðafæri í stöðunni 1-0 en lét Sindra Kristinn verja frá sér.Vísir/Diego

Liðin mættust á miðvellinum Í Kaplakrika en leikurinn hefði ekki getað byrjað betur fyrir FH-inga. Vuk Oskar fékk sendingu inn á teig sem hann skallaði beint upp í loftið og barst boltinn til Kjartans Henry, fyrrum KR leikmannsins, sem tók bakfallsspyrnu og boltinn fór yfir Simen í markinu og í netið. Fullkomin byrjun fyrir FH sem og Kjartan Henry sem vildi eflaust ólmur skora gegn sínu gamla félagi.

Eftir markið voru það KR-ingar sem stýrðu leiknum en náðu hins vegar ekki að skapa mörg dauðafæri. Það var þó eitt sem kom á 21.mínútu en þá slapp Ægir Jarl einn í gegn en Sindri sá við honum. Staðan 1-0 í hálfleik.

FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og sóttu stíft og það átti eftir að skila sér. Á 53.mínútu fengu þeir aukaspyrnu rétt fyrir utan teig sem Björn Daníel tók og skaut boltanum beint í netið framhjá Simen í markinu, staðan því orðin 2-0.

FH gerði síðan út um leikinn á 60.mínútu þegar Kjartan Henry skoraði sitt annað mark. Björn Daníel átti fastan skalla að marki eftir fyrirgjöf Ólafs Guðmundssonar sem Simen náði að verja en missti boltann fyrir fætur Kjartans sem þakkaði fyrir sig og skoraði.

Lokatölur í Kaplakrika 3-0 og FH-ingar því komnir með sjö stig í deildinni.

Af hverju vann FH?

Heimir talaði um það í viðtali eftir leik að vegna vallaraðstæðna var uppleggið að blanda saman stuttu og löngu spili og það má segja að það hafi gengið virkilega vel upp með stóru mennina Kjartan Henry og Úlf frammi.

Hverjir stóðu uppúr?

Kjartan Henry stal senunni í þessum leik, það fer ekkert á milli mála.

Hvað fór illa?

Simen, markvörður KR, átti ekki sinn besta leik í dag. Hann var ekki vel staðsettur í fyrsta marki FH þegar hann var langt útfrá línunni og því gat Kjartan Henry komið boltanum yfir hann og inn. Í öðru marki FH-inga var hann einnig ekki nægilega vel staðsettur og því gat Björn Daníel skoraði í markmanns hornið.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur FH er gegn KA á miðvikudaginn fyrir norðan og næsti leikur KR er gegn HK sama kvöld.

Heimir Guðjónsson: Blönduðum saman stuttum og löngum sendingum

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.Vísir/Hulda Margrét

„Já ég myndi segja að þetta hafi verið fullkomið svar eftir vonbrigðin í vikunni,” byrjaði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, að segja í viðtali eftir leik.

„Við byrjuðum þetta mjög sterkt og vorum mjög öflugir í seinni boltunum. Það var auðvitað ekkert hægt að spila einhvern glans fótbolta og þurftum því að blanda spilinu svolítið saman með styttri og lengri sendingum og þegar við fórum í lengri sendingarnar þá vorum við mjög öflugir í seinni boltunum,” hélt Heimir áfram.

Heimir vildi meina að lið hans hafi verið með góð tök á leiknum nánast allan tímann.

„Mér fannst við vera með góð tök á leiknum fyrir utan kannski um miðbik fyrri hálfleiks þegar þeir náðu að yfirmanna svæðin hægra megin. En heilt yfir mjög góð liðs frammistaða.”

„Við vorum að nýta Kjartan Henry og Úlf mjög vel þarna frammi en síðan náðum við líka að tengja saman gott spil í gegnum Loga og Björn Daníel.”

Eftir að hafa fengið á sig fjögur mörk í vikunni var Heimir mjög ánægður með að liðið hélt hreinu.

„Við auðvitað töluðum mikið um það í vikunni að varnarleikur alls liðsins hafi ekki verið nægilega góður og færslurnar hafi ekki verið nægilega góðar og alltof langt bil á milli manna. Við fórum vel yfir þetta allt í vikunni og því var ég ánægður að sjá allt annað í þessum leik,” endaði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, að segja eftir leik.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, neitaði hins vegar að mæta í viðtal eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira