Innlent

Slökkvistarfi lokið á vettvangi banaslyssins í Njarðvík

Kolbeinn Tumi Daðason og Helena Rós Sturludóttir skrifa
Frá vettvangi í Njarðvíkurhöfn í morgun.
Frá vettvangi í Njarðvíkurhöfn í morgun. Vísir/Egill

Slökkvistarfi er lokið í Njarðvíkurhöfn þar sem eldur kviknaði í netabátnum Grímsnesi GK-555 í nótt. Vettvangur var afhentur Lögreglunni á Suðurnesjum upp úr klukkan tvö í dag.

Herbert Eyjólfsson, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Þá hafði slökkviliðið glímt við hita hér og þar í skipinu.

„Það kom upp eldur þar sem eldhúsið er og þá jókst hitinn mikið,“ segir Herbert. Slökkviliðsmenn hafi farið niður í bátinn og náð að slökkva eldinn.

Þá hafa slökkviliðsmenn dælt sjó úr skipinu síðan í morgun. Herbert segir skipið hafa farið að halla vel.

Lögregla er á vettvangi og þá eru kafarar að dæla úr lestinni og vélarrúminu.

Slökkviliðið fékk útkall vegna brunans um klukkan tvö í nótt og voru þá sjö skipverjar um borð. Fjórir þeirra komust út að sjálfsdáðum og ómeiddir en tveir voru fluttir á sjúkrahús, annar illa haldinn með brunasár og er honum nú haldið sofandi á Landspítalanum í Fossvogi.

Pólskur karlmaður sem hefði orðið fimmtugur á árinu lést í brunanum og lætur eftir sig eiginkonu og unglingsson í Póllandi.


Tengdar fréttir

Hiti aftur farinn að aukast í bátnum

Enn er nokkur hiti í netabátnum Grímsnesi GK-555 sem brann í Njarðvíkurhöfn í nótt og í morgun. Slökkvilið er enn að störfum og verið að dæla töluverðum sjó í gegnum skipið til að kæla það. 

Gríðar­legur hiti og eldurinn erfiður viður­eignar

Gríðarlegur hiti og eldur var í Grímsnesi GK-555, netabáti sem brann í Njarðvíkurhöfn í nótt og í morgun. Varaslökkviliðsstjóri segir eldinn hafa verið gríðarlega erfiðan við að etja. Þá hafi karlmaður sem lést í brunanum ekki verið með lífsmarki þegar slökkvilið náði að koma honum út úr skipinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×