Enski boltinn

Man United skoðar hvað þarf til að fá Kane í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Kane gæti verið á förum frá Tottenham.
Harry Kane gæti verið á förum frá Tottenham. Visionhaus/Getty Images

Landsliðsframherjinn Harry Kane virðist efstur á óskalista enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United. Félagið skoðar nú hvað þarf til að festa kaup á Kane í sumar.

Kane er samningsbundinn Tottenham Hotspur til ársins 2024 en það virðist næsta öruggt að hann muni ekki skrifa undir nýjan samning í Lundúnum. Afhroðið gegn Newcastle United um liðna helgi er talið vera kornið sem fyllti mælinn.

Þrátt fyrir að Kane verði þrítugur í sumar virðist sem Erik Ten Hag vilji fá landsliðsframherja Englands til að leiða línuna hjá Man United. Samkvæmt Sky Sports er Manchester-liðið nú að athuga hversu mikið Tottenham vill fyrir leikmann sem gæti annars farið frítt sumarið 2024.

Kane verður án efa eftirsóttur ef hann ákveður að yfirgefa Tottenham. Þýskalandsmeistarar Bayern München eru aðdáendur en hvort Kane sé tilbúinn að yfirgefa ensku úrvalsdeildina er annað mál. Ef hann heldur áfram á sömu braut gæti hann orðið markahæsti leikmaður í sögu deildarinnar.

Þrátt fyrir að Tottenham hafi ekki getað mikið á leiktíðinni þá hefur hann samt sem áður skorað 24 mörk í 32 leikjum í ensku úrvalsdeildinni ásamt því að gefa tvær stoðsendingar.

Man United er á höttunum á eftir framherja en Anthony Martial er sífellt meiddur og lánssamningur Wout Weghorst rennur út í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×