Erlent

Rúss­nesk her­þota skaut á rúss­nesku borgina Bel­gor­od

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nokkrum myndum af vettvangi hefur verið dreift til erlendra miðla.
Nokkrum myndum af vettvangi hefur verið dreift til erlendra miðla. Getty/Héraðsyfirvöld Belgorod

Rússnesk herþota skaut af vopnum sínum á rússnesku borgina Belgorod seint í gærkvöldi. Tvær konur slösuðust og fjögur íbúðahús og fjórir bílar skemmdust, að sögn yfirvalda.

Staðaryfirvöld greindu frá því í gærkvöldi að sprenging hefði orðið í borginni og að gígur, um það bil 20 metrar að þvermáli, hefði myndast á einni aðalgötu borgarinnar. Neyðarástandi var lýst yfir.

Stuttu síðar hafði fréttastofan Tass eftir varnarmálaráðuneytinu að slys hefði átt sér stað þegar rússnesk herþota var að fljúga yfir borgina og að óvart hefði verið hleyt af vopnum þotunnar.

Samkvæmt Reuters hefur varnarmálaráðuneytið ekki gefið upp um hvers konar vopn var að ræða en þotan var af tegundinni Sukhoi Su-34. 

Myndskeið frá vettvangi sýna steypuhrúgur, brotnar rúður nærliggjandi byggingar og skemmdar bifreiðar. Á einu myndskeiði virðist bíll vera á hvolfi ofan á þaki verslunar.

Belgorod liggur nærri landamærunum að Úkraínu og eldsneytis- og vopnageymslur í borginni hafa verið skotmörk Úkraínumanna eftir að Rússar gerðu innrás.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×