Innlent

Slökktu fjölda gróður­elda síðast­liðinn sólar­hring

Árni Sæberg skrifar
Slökkviliði gekk vel að slökkva þá gróðurelda sem kviknuðu síðastliðinn sólarhring. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Slökkviliði gekk vel að slökkva þá gróðurelda sem kviknuðu síðastliðinn sólarhring. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Töluverður erill var hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins síðastliðinn sólarhring. Dælubílar fóru í fimm útköll vegna gróðurelda, sem flestir kviknuðu miðsvæðis.

Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu var um minniháttar sinubruna að ræða sem gekk vel að slökkva. Þeir hafi kviknað við Landspítalann við Hringbraut, við Hlíðarenda og í Vatnsmýrinni. 

Þá segir hann að áfram verði hætta á gróðureldum vegna mikillar þurrkatíðar á höfuðborgarsvæðinu en að henni fari senn að ljúka. „Við bíðum bara eftir rigningunni.“

Í færslu á Facebooksíðu slökkviliðsins segir að erilsömum sjúkraflutningasólarhringi sé lokið. Farið hafi verið í 135 sjúkraflutninga og þar af 54 forgangsflutninga. 

„Spurning hvort góða veðrið í gær hafi kynnt undir djammpúkann hjá fólki því nóttin tengdist svolítið skemmtanalífinu. En sem betur fer voru það meira og minna minniháttar útköll,“ segir í færslunni.

Að sögn varðstjóra var farið í 25 sjúkraflutninga eftir miðnætti, flesta í miðbæ Reykjavíkur þar sem fólk sletti úr klaufunum í nótt. Það sé óvenjumikið.

„En það er samt minna en síðustu helgi, páskarnir voru mjög drjúgir í þessu,“ segir varðstjórinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×