Erlent

Seldi milljarða­mæringi fast­eignir án þess að gefa það upp

Kjartan Kjartansson skrifar
Clarence Thomas og milljarðamæringurinn Harlan Crow eru gamlir vinir. Dómarinn hefur þegið nær árlegar lúxusferðir frá vini sínum sem hann hefur aldrei gert grein fyrir.
Clarence Thomas og milljarðamæringurinn Harlan Crow eru gamlir vinir. Dómarinn hefur þegið nær árlegar lúxusferðir frá vini sínum sem hann hefur aldrei gert grein fyrir. AP/J. Scott Applewhite

Bandarískur hæstaréttardómari seldi milljarðamæringi og þekktum bakhjarli Repúblikanaflokksins fasteignir án þess að geta þess í hagsmunaskráningu sinni. Áður hafði verið upplýst að dómarinn þáði lúxusferðir frá milljarðamæringnum sem hann gerði aldrei grein fyrir.

Rannsóknarblaðamennskusamtökin Pro Publica greindu nýlega frá fjölda lúxusferða sem Clarence Thomas, íhaldssamasti dómarinn við Hæstarétt Bandaríkjanna, hefur þegið frá Harlan Crow, milljarðamæringi frá Texas sem hefur styrkt Repúblikanaflokkinn um árabil. 

Thomas og Crow eru vinir og skráði dómarinn ferðirnar, sem Crow greiddi fyrir, ekki í hagsmunaskráningu sína. Bar hann því við að hann hafi aðeins notið „gestrisni“ vinar síns og honum hafi ekki borið að skrá það. Thomas og eiginkona hans hafa þegið ferðir frá Crow á næstum hverju ári undanfarna tvo áratugi.

Nú greinir sami miðill frá því að Crow hafi keypt tvær auðar lóðir og hús móður Thomas í Georgíu af dómaranum. Thomas gat viðskiptanna heldur ekki hagsmunaskráningu sinni. Pro Publica segir þetta fyrsta staðfesta dæmið um að Thomas hafi tekið beint við fé frá Crow.

Lét strax gera upp hús móður dómarans

Opinber gögn sýna að félag í eigu Crow greiddi Thomas, móður hans og fjölskyldu látins bróður dómarans rúmlega 133.000 dollara, jafnvirði rúmlega átján milljóna íslenskra króna, árið 2014. Skömmu eftir viðskiptin lét Crow gera upp hús móður Thomas fyrir tugi þúsunda dollara, milljónir íslenskra króna.

Samkvæmt lögum bar Thomas að gera grein fyrir viðskiptunum en það gerði hann aldrei. Sérfræðingar sem Pro Publica ræddi við telja að Thomas hafi þannig brotið lög. Thomas svaraði ekki spurningum miðilsins vegna umfjöllunarinnar. 

Crow svaraði heldur ekki spurningum miðilsins en sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist meðal annars ætla að breyta húsi móður Thomas í safn til að segja sögu dómarans.

Öldungadeildarþingmenn demókrata hafa hvatt John Roberts, forseta hæstaréttar, til þesss að rannsaka boðsferðir Thomas með Crow. Samkvæmt umfjöllun Pro Publica hefði ein ferða Thomas með Crow til Indónesíu getað kostað hann um hálfa milljón dollara, hátt í 68 milljónir króna, ef hann hefði þurft að greiða sjálfur fyrir leiguflugvél og snekkju.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×