Erlent

Ungur þjóð­varð­liði hand­tekinn vegna lekans á leyni­gögnunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglubílar loka vegum í kringum heimili ungs manns sem er grunaður um að leka háleynilegum gögnum í Massachusetts í dag.
Lögreglubílar loka vegum í kringum heimili ungs manns sem er grunaður um að leka háleynilegum gögnum í Massachusetts í dag. AP/Michelle R. Smith

Tuttugu og eins árs gamall þjóðvarðliði var handtekinn á heimili sínu í Massachusetts í Bandaríkjunum grunaður um að leka háleynilegum hernaðaruppýsingum í dag. Hann verður ákærður fyrir ólögmæta meðferð á ríkisleyndarmálum.

Maðurinn sem er talinn á bak við leka á hundruð blaðsíðna af háleynilegum gögnum, þar á meðal um stríðið í Úkraínu, er ungur maður sem vann á herstöð í Bandaríkjunum. Hann deildi upplýsingunum fyrst með smáum hópi á spjallborði innan forritsins Discord, sem er vinsælt meðal leikjaspilara. Svo virðist sem hann hafi reynt að ganga í augun á félögum sínum með því að birta leynileg skjöl í hópnum.

Bandarískir fjölmiðlar nafngreindu manninn í dag. Hann heitir Jack Teixeira og er 21 árs gamall liðsmaður flugþjóðvarðliðsins. 

Merrick Garland, dómsmálaráðherra, staðfesti að hann hefði verið handtekinn án erfiðleika á heimili sínu í North-Dighton og að hann kæmi fyrir alríkisdómara í Massachusetts í dag. Þar verður þingfest ákæra á hendur honum fyrir að fjarlægja leynilegar varnarmálaupplýsingar með ólögmætum hætti.

Pat Ryder, fylkisforingi í flughernum, sagði að verið væri að meta skaðann sem lekinn hafi valdið. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að þó að lekinn væri vissulega áhyggjuefni þá væri honum ekki kunnugt um að þýðingarmikil samtímagögn hafi verið á meðal skjalanna sem maðurinn lak.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×