Innlent

Eldur logaði í safn­haug fram á nótt

Árni Sæberg skrifar
Starfsmaður Furu aðstoðaði slökkvilið með því að róta til í safnhaugnum með stórri vinnuvél.
Starfsmaður Furu aðstoðaði slökkvilið með því að róta til í safnhaugnum með stórri vinnuvél. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Mikið mæddi á Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins síðastliðinn sólarhring. Dælubílar voru sendir í  fjögur útköll, þar af eitt sem tók fjórar klukkustundir, og sjúkralið sinnti 94 sjúkraflutningum, sem er vel yfir meðaltali.

Um klukkan 22 í gærkvöldi barst slökkviliði tilkynning um eld á iðnaðarsvæði Furu við Hringhellu í Hafnarfirði. Þar hafði kviknað í safnhaug fyrir viðarspón. Slökkvilið var að störfum til rétt tæplega tvö í nótt við að slökkva eldinn ásamt starfsmönnum Furu, sem hjálpuðu til við að róta í haugnum, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu.

Í færslu á Facebooksíðu slökkviliðsins segir að það komi reglulega fyrir að eldur kvikni í safnhaugum þar sem mikill hiti getur myndast vegna rotnunar. Þá segir að slíkur eldur láti ekki mikið fara fyrir sér þegar hann er að kvikna. Meðfylgjandi mynd sýnir vel hversu mikill hiti getur leynst í safnhaug án þess að mikið sjái á honum.

Þá segir varðstjórinn að óvenjumikið hafi verið að gera í sjúkraflutningum í nótt. Farið hefi verið í 45 verkefni í nótt og 94 í heildina síðastliðinn sólarhring, sem sé yfir meðaltali. Hann segir verkefnin hafa verið af ýmsum toga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×