Fótbolti

Hafa boðið Messi tæpa sextíu milljarða í árslaun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi þarf líklega ekki að hafa áhyggjur af því að eiga ekki fyrir salti í grautinn, en sextíu milljarðar geta þó freistað.
Lionel Messi þarf líklega ekki að hafa áhyggjur af því að eiga ekki fyrir salti í grautinn, en sextíu milljarðar geta þó freistað. Christian Liewig - Corbis/Corbis via Getty Images

Ef marka má félagsskiptasérfræðingin Fabrizio Romano er argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi með samningstilboð á borðinu sem myndi gera hann að langlaunahæsta leikmanni heims.

Romano segir að Messi, sem er í dag leikmaður Paris Saint-Germain í frönsku úrvalsdeildinni, sé með tilboð frá Al-Hilal í Sádí Arabíu sem hljóðar upp á fjögurhundruð milljónir evra í árslaun. Það samsvarar rétt tæpum sextíu milljörðum íslenskra króna.

Samningur Messi við frönsku meistarana rennur út í sumar og hinir ýmsu miðlar hafa greint frá því að þessi 35 ára gamli leikmaður sé farinn að hugsa sér til hreyfings. 

Þó telja flestir að Messi vilji halda áfram að spila í Evrópu og Rafael Yuste, varaformaður Barcelona, hefur greint frá því að félagið hafi haft samband við leikmanninn og rætt um endurkomu. 

Fari það hins vegar svo að Messi láti tilleiðast og samþykki boð Al-Hilal mun hann þéna meira en tvöfalt meira en núverandi launahæsti leikmaður heims, Cristiano Ronaldo, sem fér um 180 milljónir evra í árslaun hjá Al Nassr í Sádí-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×