Fótbolti

Barcelona hafi rætt við Messi um endurkomu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það var tilfinningaþrungin stund þegar Messi tilkynnti um brottför sína frá Barcelona.
Það var tilfinningaþrungin stund þegar Messi tilkynnti um brottför sína frá Barcelona. Adria Puig/Anadolu Agency via Getty Images

Rafael Yuste, varaforseti spænska stórveldisins Barcelona, segir að félagið hafi verið í sambandi við Lionel Messi um mögulega endurkomu leikmannsins til félagsins.

Messi er af mörgum talinn einn allra besti knattspyrnumaður sögunnar og í augum stuðningsmanna Barcelona er Argentínumaðurinn í guðatölu. Hann hóf ferilinn hjá félaginu og er langmarkahæsti leikmaður Barcelona frá upphafi með 672 mörk í 778 leikjum fyrir félagið.

Þessi 35 ára gamli leikmaður yfirgaf Barcelona árið 2021 vegna fjárhagsvandræða félagsins. Hann hafði þá tekið á sig launalækkun, en félagið þurfti þó að ná að losa leikmenn undan samningi til að halda Messi innan raða félagsins.

Hann gekk í raðir Paris Saint-Germain sumarið 2021 og skrifaði undir tveggja ára samning við félagið. Sá samningur rennur út í sumar, en einhverjir telja þó að Messi vilji vera áfram í herbúðum franska liðsins.

„Leo og fjölskylda hans vita hversu mikils hann er metinn innan félagsins,“ sagði Yuste í vikunni.

„Ég hef tekið þátt í samningaviðræðum sem hafa því miður ekki skilað ákveðnum árangri. Það hefur alltaf pirrað mig að Leo hafi ekki getað haldið áfram hjá félaginu.“

„Messi veit hversu mikils hann er metinn hérna. Ég myndi elska það að fá hann aftur. Við höfum að sjálfsögðu haft samband,“ bætti Yuste við.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.