Meistararnir gengu frá Liverpool í seinni hálfleik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jack Grealish skoraði og lagði upp fyrir City í dag.
Jack Grealish skoraði og lagði upp fyrir City í dag. Will Palmer/Sportsphoto/Allstar via Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City unnu sannfærandi sigur er liðið tók á móti Liverpool í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Lokatölur 4-1, en staðan í hálfleik var jöfn, 1-1.

Það voru gestirnir í Liverpool sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Mohamed Salah slapp einn í gegn eftir sendingu fá Diogo Jota á 17. mínútu og kláraði færið vel með góðu skoti í fjærhornið.

Julian Alvarez jafnaði þó metin fyrir heimamenn tíu mínútum síðar og staðan var því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Meistararnir byrjuðu svo seinni hálfleikinn af miklum krafti og Kevin De Bruyne var búinn að koma City yfir þegar hálfleikurinn var tæplega mínútu gamall. Ilkay Gundogan bætti svo þriðja marki heimamanna við á 53. mínútu og brekkan orðin brött fyrir Liverpool.

Heimamenn voru ekki hættir og Jack Grealish skoraði fjórða mark City á 74. mínútu og þar við sat. Niðurstaðan varð öruggur 4-1 sigur City sem nú er fimm stigum á eftir toppliði Arsenal í öðru sæti deildarinnar eftir 28 leiki. Liverpool situr hins vegar í sjötta sæti með 42 stig, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira