Íslenski boltinn

Baldur um ÍBV: „Vísbendingar um góð kaup“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Filip Valencic lofar góðu fyrir ÍBV.
Filip Valencic lofar góðu fyrir ÍBV. vísir/hulda margrét

Baldur Sigurðsson segir jákvæð teikn á lofti hjá ÍBV eftir gott undirbúningstímabil. Liðinu er spáð 8. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports.

„Það er nokkuð langt síðan þeir hafa litið svona vel út. Manni finnst þeir þó alltaf hafa litið þokkalega út og aldrei haft stórar áhyggjur af þeim enda verið með stór nöfn, Andra Rúnar [Bjarnason] í fyrra, Guðjón Pétur [Lýðsson] og fleiri. Núna er ekki alveg það sama uppi á teningnum. Það sem hefur breyst núna er að við erum að sjá árangur og það áhyggjuefni sem við töluðum mikið um, alveg fram í mitt mót í fyrra, að liðið virtist ekki vera í formi á ekki við núna,“ sagði Baldur sem er einn sérfræðinga Stöðvar 2 Sports um Bestu deildina.

„Það er einkenni sem má aldrei vanta hjá Eyjamönnum. Það virðist klárlega vera til staðar núna og Hermann [Hreiðarsson, þjálfari ÍBV] virðist vera búinn að stilla þá vel saman í vetur. Eins og þeir líta út núna eru þeir mjög skarpir, virðast finna sig vel í sínum hlutverkum og svo virka þær örfáu viðbætur sem þeir hafa tekið inn spennandi.“

Baldur er spenntur fyrir nýju mönnunum hjá ÍBV, sérstaklega slóvenska miðjumanninum Filip Valencic.

„Mig langar fyrst og fremst að nefna Filip Valencic. Maður er enn að meta hann en miðað við það sem maður hefur séð af honum virkar þetta gæðaleikmaður. Hann hefur flakkað vel á sínum ferli, er greinilega vanur ævintýrum og hefur spilað á töluvert hærra getustigi en á Íslandi. Ég held að þarna séu vísbendingar um góð kaup,“ sagði Baldur.

„Ég held að þetta sé lykilmaðurinn í þessu liði ÍBV. Þú ert með Halldór Jón [Sigurð Þórðarson], Arnar Breka [Gunnarsson], Sverri Pál Hjaltested og Alex [Frey Hilmarsson] á miðjunni, stráka sem geta hlaupið gríðarlega en þegar þú ert kominn með svona hágæða leikmann til að spila þessa leikmenn uppi og halda boltanum aðeins held ég að þeir séu að búa til býsna spennandi blöndu.“

Fyrsti leikur ÍBV í Bestu deildinni er gegn Val mánudaginn 10. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×