Pútín greindi frá áformunum á blaðamannafundi í gær og sagði ekkert við þau að athuga. Nú þegar hafa nokkur Iskander-eldflaugakerfi, sem borið geta kjarnaodda, verið flutt yfir til Hvíta-Rússlands. Landamæri landsins liggja að Úkraínu, Póllandi, Litháen og Lettlandi auk Rússlands.
Bandaríkjamenn segjast ekki telja að Rússar hyggist nota kjarnorkuvopn. Atlantshafsbandalagið fordæmir landflutningana og Úkraína segir Rússa brjóta gegn banni við notkun kjarnorkuvopna með áformunum. Því harðneitaði Vladimír Pútín í gær. Rússar væru ekki að nota nein kjarnorkuvopn.
Hvít-Rússar hafa verið hvattir til að taka ekki á móti vopnunum en Alexander Lúkasjenkó forseti landsins lagði blessun sína yfir flutningana í gær. CNN greinir frá.
Þetta er í fyrsta sinn í tæp 30 ár sem Rússland geymir kjarnorkuvopn annars staðar en í Rússlandi.