Erlent

Á­rásar­maðurinn tví­tugur og skaut á fólk af handa­hófi

Atli Ísleifsson skrifar
Narsaq er að finna á suðvesturströnd Grænlands og telja íbúar um 1.500.
Narsaq er að finna á suðvesturströnd Grænlands og telja íbúar um 1.500. Getty

Lögregla á Grænlandi segir að árásarmaðurinn, sem særði fimm manns á þyrluflugvellinu í Narsaq á miðvikudaginn, hafi fyrst skotið á byggingar í bænum áður en hann hélt að þyrluflugvellinum þar sem hann skaut á fólk af handahófi.

Lögregla greindi frá þessu á stuttum blaðamannafundi í gær. Aðstoðarlögreglumaðurinn Lars Bjerregaard sagði að maðurinn, sem er tvítugur heimamaður, hafi hafið skothríð sína nokkru áður en hann hélt út á þyrluflugvöllinn.

„Árásarmaðurinn byrjaði á því að skjóta á nokkrar byggingar í bænum og hélt svo út á þyrluflugvöllinn þar sem hann skaut að þyrlu sem var við það að lenda,“ segir Bjerregaard.

Maðurinn var handtekinn skömmu eftir árásina og hefur lögregla farið fram á að hann verði úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Í frétt Sermitsiaq.AG segir lögregla að almenningur sé hvattur til að koma myndbandsupptökum og myndum sem gætu nýst við rannsóknina í hendur lögreglu.

Bjerragaard segir að unnið sé að því hörðum höndum að kortleggja ferðir mannsins og atburðinn í heild sinni.

Hann segir engin tengsl vera á milli árásarmannsins og þeirra sem særðust, en tveir fengu skot í sig og þrír til viðbótar flísar úr byssukúlum í sig. Enginn þeirra er þó í lífshættu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×