Enski boltinn

West Ham vill Still

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Will Still hefur gert frábæra hluti með Reims í Frakklandi.
Will Still hefur gert frábæra hluti með Reims í Frakklandi. getty/Jean Catuffe

Forráðamenn West Ham United ku hafa áhuga á Will Still, unga Englendingnum sem hefur gert frábæra hluti með Reims í frönsku úrvalsdeildinni.

Still, sem er aðeins þrítugur, tók við Reims í október í fyrra. Undir hans stjórn hefur liðið aðeins tapað einum leik í frönsku úrvalsdeildinni og er í 9. sæti hennar. Árangurinn kostar þó sitt því Reims þarf að greiða sekt fyrir hvern leik sem Still stýrir liðinu í þar sem hann er ekki með Pro License þjálfaragráðu.

Framganga Reims undir stjórn Stills hefur vakið athygli, meðal annars West Ham sem hefur áhuga á að fá hann til að taka við af David Moyes. West Ham ætti að heilla Still enda hefur hann haldið með liðinu frá blautu barnsbeini.

West Ham hefur gengið illa í vetur og er í fallsæti í ensku úrvalsdeildinni. Starf Moyes er í hættu, jafnvel þótt hann sé búinn að koma Hömrunum í átta liða úrslit Sambandsdeildar Evrópu.

Moyes tók við West Ham í annað sinn undir lok árs 2019. Undir hans stjórn endaði liðið í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar 2020-21 og komst í undanúrslit Evrópudeildarinnar tímabilið á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×