Erlent

Játar að hafa sett konuna í frystinn og er með nauðgunar­dóma á bakinu

Árni Sæberg skrifar
Þessar myndir eru úr öryggismyndavélum verslunar, þar sem maðurinn var sakaður um að hafa stolið mýflugnafælu árið 2019.
Þessar myndir eru úr öryggismyndavélum verslunar, þar sem maðurinn var sakaður um að hafa stolið mýflugnafælu árið 2019. Lögreglan í Svíþjóð

Norskur karlmaður, sem var handtekinn á fimmtudag eftir að lík sambýliskonu hans fannst í frystikistu á sveitabæ hans í Vermalandi í Svíþjóð, hefur játað að hafa vanvirt lík konunnar en neitar að hafa myrt hana. Hann á langan sakaferil að baki og hefur meðal annars hlotið dóma fyrir tvær nauðganir.

Greint var frá því á laugadag að karlmaður hefði verið handtekinn eftir að lík konu fannst niðurhlutað í frystikistu heima hjá honum. Hann hefur nú verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald.

Líkið sem um ræðir er af sambýliskonu mannsins, sem saknað hafði verið frá árinu 2018. Stefan Liliebäck, verjandi hans, segir í samtali við norska fréttamiðilinn NRK að maðurinn hafi játað vanvirðandi meðferð á líkinu en neiti staðfastlega að hafa myrt hana. Hann hafi sagt yfirheyrendum hvernig konan lést og hvernig það hafi komið til að lík hennar endaði sundurhlutað í frystikistunni. Liliebäck segist þó ekki geta greint nánar frá útskýringum hans.

Afbrotaferill nær aftur til níunda áratugarins

Maðurinn, sem er á sextugsaldri, á að baki langan og fjölbreyttan afbrotaferil sem nær aftur til níunda áratugar síðustu aldar. NRK hefur komist yfir fjölda dóma yfir manninum. Þeir alvarlegustu eru frá tíunda áratugnum, þegar maðurinn var sakfelldur fyrir tvær nauðganir og eina tilraun til nauðgunar.

Í öðru tilfellinu sagði kona að maðurinn hefði nauðgað sér við vegkant eftir að berað sig fyrir henni. Seinni nauðgunina, sem maðirinn var sakfelldur fyrir, framdi hann gegn konu á níræðisaldri. 

Hún sagði á sínum tíma að hann hefði ruðst inn í svefnherbergi hennar, haldið púða yfir vitum hennar og nauðgað henni. Hún hafi óttast um líf sitt þar sem hann hafi verið stór og ægisterkur.

Þá segir í frétt NRK að maðurinn hafi verið nauðungarvistaður á viðeigandi stofnun vegna geðrænna vandamála eftir að hafa ítrekað berað sig fyrir fólki. Þar á meðal 76 ára gamalli konu og þrettán ára barni.

Auk kynferðisbrota hefur maðurinn einnig verið sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og án leyfis. Loks var hann kærður fyrir búðarhnupl í verslun ICA í Svíþjóð árið 2019 en ekki sakfelldur fyrir. Honum var þó meinaður aðgangur að verslunum keðjunnar til frambúðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×