Sjáðu mörkin: Ó­trú­legur við­snúningur Man United sem er komið í undan­úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bruno Fernandes skorar þriðja mark Man United.
Bruno Fernandes skorar þriðja mark Man United. Matthew Ashton/Getty Images

Manchester United er komið í undanúrslit FA-bikarkeppninnar eftir ótrúlegan 3-1 sigur á Fulham þar sem gestirnir frá Lundúnum fengu að líta þrjú rauð spjöld á aðeins nokkrum sekúndum er Man United sneri leiknum sér í hag.

Fyrri hálfleikur á Old Trafford var ekki mikið fyrir augað og mátti sjá á heimamönnum að leikjaálagið var farið að taka sinn toll. Besti maður heimamanna framan af var markvörðurinn David De Gea en hann kom engum vörnum við þegar serbneski framherjinn Aleksandar Mitrović var fyrstur að bregðast við eftir að Issa Diop skallaði hornspyrnu Andreas Pereira fyrir markið.

Mitrović var einn á auðum sjó og kom Fulham yfir. Á þeim tímapunkti virtust heimamenn alls ekki líklegir til að jafna metin. Það átti heldur betur eftir að breytast þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Eftir góða skyndisókn átti Jadon Sancho skot að marki sem Willian stökk fyrir og varði með hendinni. Dómari leiksins dæmdi hornspyrnu en var á endanum sagt að fara í skjáinn þar sem það var deginum ljósara að Willian hefði notað hendina.

Á meðan Chris Kavanagh, dómari, var í skjánum reyndi Marco Silva þjálfari Fulham að skipta sér af og fékk umsvifalaust að líta rauða spjaldið. Er það stranglega bannað að hafa afskipti af dómurum þegar þeir eru í skjánum að skoða atvik. Í kjölfarið breytti Kavanagh ákvörðun sinni og rak Willian af velli.

Gestirnir fóru vægast sagt úr öskunni í eldinn þar sem markaskorarinn Mitrović ákvað að rífa í dómarann og frussa út úr sér nokkrum vel völdum orðum. Fékk hann líka að líta rauða spjaldið og Fulham því 9 gegn 11 það sem eftir lifði leiks. Og án þjálfara síns.

Bruno Fernandes tók vítaspyrnuna fyrir Man United og skoraði af einkar miklu öryggi. Hann fór strax að boltanum og hljóp upp að miðju.

Strax í næstu sókn var staðan orðin 2-1 Man United í vil. Luke Shaw fékk sendingu frá Sancho og gaf fyrir markið. Þar var Marcel Sabitzer á auðum sjó og skoraði með hælnum.

Staðan orðin 2-1 Manchester United í vil og virtist það ætla að verða lokatölur þar sem gestirnir áttu erfitt með að ógna marki heimamanna enda tveimur mönnum færri. 

Það var komið vel fram yfir venjulegan leiktíma þegar heimamenn óðu í sókn. Á endanum renndi Fred boltanum á Fernandes sem þrumaði boltanum úr þröngu færi og gulltryggði 3-1 sigur Man United sem og sæti í undanúrslitum.

Man United mætir Brighton & Hove Albion í undanúrslitum FA-bikarkeppninnar þann 22. apríl næstkomandi. Leikurinn fer fram á Wembley og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.