Innlent

Stór bú­staður við Apa­vatn var al­elda þegar slökkvi­liðið mætti

Máni Snær Þorláksson skrifar
Eldur kviknaði í bústað við Apavatn í morgun.
Eldur kviknaði í bústað við Apavatn í morgun. Aðsend

Brunavörnum Árnessýslu barst tilkynning um að kviknað væri í sumarbústað norðaustan við Apavatn klukkan rétt rúmlega sjö í morgun. Þá var bústaðurinn þegar alelda.

„Þegar fyrstu bílar frá okkur koma þá er þetta í rauninni bara fallið,“ segir Halldór  Ásgeirsson, aðalvarðstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, í samtali við fréttastofu. Að hans sögn er um að ræða stóran bústað með kjallara, hæð og risi.  Ekkert liggur fyrir um upptök eldsins.

Bústaðurinn er staðsettur einungis um fimmtán metrum frá bökkum Apavatns. Þegar slökkviliðið fékk staðfest að enginn hafi verið í bústaðnum var því ákveðið að slökkva eldinn í rólegheitunum með sem minnstu vatni til að menga ekki stöðuvatnið.

„Við erum bara í rauninni að passa okkur að missa ekki mengað vatn út í Apavatn. Þarna eru hryggingarstöðvar fyrir silung og annað,“ segir Halldór. Slökkviliðið mun vinna í því að slökkva eldinn á næstu klukkutímunum.

„Alveg eins gott og það gat mögulega verið“

Það er nokkuð af bústöðum í kringum þann bústað sem kviknaði í. Eldurinn breiddist þó ekki út og segir Halldór að hægt sé að þakka vel slegni lóðinni fyrir það. „Þessi bústaður stendur á þokkalega stórri lóð og grasflatirnar í kringum hann eru vel slegnar,“ segir hann.

„Það eiginlega bjargaði því að það varð ekki útbreiðsla í gróðurinn. Þarna var bara slétt og fínt, vel slegið, snögghærð, þannig það var engin sina eða neitt. Þannig þetta var eiginlega alveg eins gott og það gat mögulega verið.“

Halldór ítrekar mikilvægi þess að fólk sé með vel hirt og snögghært svæði í kringum bústaðinn sinn. Þannig séu minni líkur á að eldur dreifist. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×