Innlent

Elva Hrönn hættir í VG

Bjarki Sigurðsson skrifar
Elva Hrönn er hún var gestur Pallborðsins að ræða framboð sitt til formanns stéttarfélagsins VR.
Elva Hrönn er hún var gestur Pallborðsins að ræða framboð sitt til formanns stéttarfélagsins VR. Vísir/Vilhelm

Elva Hrönn Hjartardóttir, fyrrverandi meðlimur stjórnar Vinstri grænna og varaformaður þeirra í Reykjavík, sagði sig úr flokknum fyrr í dag. Hún segist ekki geta kennt sig við hreyfingu „sem samþykkir þau mannréttindabrot sem nýsamþykkt útlendingafrumvarp felur í sér.“

Elva greinir frá þessu í Facebook-færslu. Þar þakkar hún flokksmeðlimum samfylgdina en hún hefur verið meðlimur flokksins í sex ár.

„Eftir 6 ár af allskonar góðu og ekki svo góðu er komið að leiðarlokum. Það er margt sem ég hef verið ósátt við og margt sem ég hef barist fyrir á vettvangi VG. En ég get ekki kennt mig við hreyfingu sem samþykkir þau mannréttindabrot sem nýsamþykkt útlendingafrumvarp felur í sér. Takk fyrir samfylgdina,“ skrifar Elva. 

Í morgun tilkynnti Daníel E. Arnarsson, varaþingmaður flokksins, að hann hafi einnig sagt sig úr Vinstri grænum af sömu ástæðu. Hann geti ekki stutt frumvarpið.

Umrætt frumvarp kemur úr smiðju Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra og fjallar um breytingar á lögum um útlendinga. Einhverjir meðlimir stjórnarandstöðunnar hafa mótmælt því harðlega, sem og fjöldi samtaka sem hefur mótmælt fyrir utan Alþingishúsið reglulega frá því að frumvarpið barst fyrst í umræðuna. 

„Það er í mínum huga alveg ljóst að við þurfum að íhuga enn frekari skref til að færa okkur nær því regluverki sem gildir í nágrannalöndunum okkar þannig að við séum ekki að fá hér þann fjölda til okkar sem er langt, langt umfram það sem er í nágrannalöndum okkar,“ sagði Jón við upphaf umræðunnar um atkvæðagreiðsluna í gær.


Tengdar fréttir

Út­lendinga­frum­varpið sam­þykkt

Meirihluti Alþingis hefur samþykkt útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Fjölmargar breytingartillögur voru lagðar fram á Alþingi í dag en þær voru jafnóðum felldar. Minnihlutaþingmenn voru ómyrkir í máli og gagnrýndu meirihlutann harðlega.

Mót­mælt fyrir utan Al­þingi

Hópur flóttamanna frá Írak stendur fyrir mótmælum fyrir utan Alþingi í dag vegna umdeilds frumvarps Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum. Greidd verða atkvæði um frumvarpið á þingi í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×