Elva greinir frá þessu í Facebook-færslu. Þar þakkar hún flokksmeðlimum samfylgdina en hún hefur verið meðlimur flokksins í sex ár.
„Eftir 6 ár af allskonar góðu og ekki svo góðu er komið að leiðarlokum. Það er margt sem ég hef verið ósátt við og margt sem ég hef barist fyrir á vettvangi VG. En ég get ekki kennt mig við hreyfingu sem samþykkir þau mannréttindabrot sem nýsamþykkt útlendingafrumvarp felur í sér. Takk fyrir samfylgdina,“ skrifar Elva.
Í morgun tilkynnti Daníel E. Arnarsson, varaþingmaður flokksins, að hann hafi einnig sagt sig úr Vinstri grænum af sömu ástæðu. Hann geti ekki stutt frumvarpið.
Umrætt frumvarp kemur úr smiðju Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra og fjallar um breytingar á lögum um útlendinga. Einhverjir meðlimir stjórnarandstöðunnar hafa mótmælt því harðlega, sem og fjöldi samtaka sem hefur mótmælt fyrir utan Alþingishúsið reglulega frá því að frumvarpið barst fyrst í umræðuna.
„Það er í mínum huga alveg ljóst að við þurfum að íhuga enn frekari skref til að færa okkur nær því regluverki sem gildir í nágrannalöndunum okkar þannig að við séum ekki að fá hér þann fjölda til okkar sem er langt, langt umfram það sem er í nágrannalöndum okkar,“ sagði Jón við upphaf umræðunnar um atkvæðagreiðsluna í gær.