Enski boltinn

Tapið skelfilega eini heili leikur Casemiro á tíu leikja tímabili

Sindri Sverrisson skrifar
David de Gea reynir að hughreysta Casemiro eftir rauða spjaldið gegn Southampton.
David de Gea reynir að hughreysta Casemiro eftir rauða spjaldið gegn Southampton. EPA-EFE/Adam Vaughan

Manchester United þarf að spjara sig án brasilíska miðjumannsins Casemiro í fjórum leikjum til viðbótar eftir að hann fékk sitt annað rauða spjald á rúmum mánuði í gær, í jafnteflinu við Southampton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Þetta eru ansi slæmar fréttir fyrir United því Casemiro hefur verið í lykilhlutverki hjá liðinu á sinni fyrstu leiktíð eftir komuna frá Real Madrid. Tölfræðin sýnir að liðinu gengur mun betur með hann innanborðs og er United með 76% sigurhlutfall í leikjum Casemiro en aðeins 43% í leikjunum sjö án hans, ef horft er til allra keppna.

Casemiro fékk einnig rautt spjald gegn Crystal Palace í febrúar. Þessi rauðu spjöld, og alls sjö leikja bann sem þeim fylgir, þýða að á tíu leikja tímabili United í ensku úrvalsdeildinni er eini heili leikurinn hjá Casemiro 7-0 tapið gegn Liverpool. Fyrsti leikurinn í þeirri törn er leikur þar sem að Casemiro tók út bann vegna uppsafnaðra gulra spjalda, í tveimur leikjum fékk hann rautt spjald og rauðu spjöldin halda honum frá keppni í samtals sex deildarleikjum.

Casemiro verður ekki bara í banni í deildarleikjum því hann byrjar á að taka út einn leik í banni um næstu helgi þegar United mætir Fulham í ensku bikarkeppninni. Hann missir svo af leikjum gegn Newcastle, Brentford og Everton í deildinni, og gæti næst spilað deildarleik 15. apríl gegn Nottingham Forest.

Bannið hefur þó ekki áhrif á Evrópudeildina og þar getur Casemiro spilað á fimmtudaginn í seinni leiknum gegn Real Betis á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×