Erlent

BBC neitar ásökunum um ritskoðun

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Umræddur þáttur fjallar um náttúruspjöll á Bretlandseyjum og orsakir þeirra.
Umræddur þáttur fjallar um náttúruspjöll á Bretlandseyjum og orsakir þeirra. Getty

Ákvörðun breska ríkisútvarpsins BBC, um að sýna ekki lokaþátt úr Wild Isles, nýrri þáttaröð Davids Attenborough hefur vakið hörð viðbrögð. Umræddur þáttur fjallar um náttúruspjöll á Bretlandseyjum og orsakir þeirra en samkvæmt heimildum The Guardian var hætt við að sýna þáttinn þar sem forsvarsmenn BBC óttuðust gagnrýnisraddir frá Íhaldsflokknum og hægri sinnuðum fjölmiðlum.

Samkvæmt frétt The Guardian var það ákvörðun BBC að sýna fimm þætti af þeim sex sem voru framleiddir, og hafa þann sjötta einungis aðgengilegan í streymisveitu ríkisútvarpsins.

Á meðal þeirra sem gagnrýnt hafa ákvörðun BBC er Caroline Lucas, þingmaður Græningjaflokks Bretlands, sem segir ákvörðunina ófyrirgefanlega vanrækslu á upplýsingaskyldu við almenning. 

Þá hefur Tom Watson, þingmaður Verkamannaflokksins bent á að augljóslega sé pottur brotinn í stjórn BBC þegar verið sé að ritskoða virtan og vel liðinn þáttagerðarmann á borð við Attenborough.

Talsmaður BBC vísar þessum ásökunum hins vegar á bug. Wild Isles sé, og hafi alltaf verið fimm þátta sería. Umræddur sjötti þáttur hafi hins vegar verið framleiddur sér og sé ekki hluti af Wild Isles seríunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×