Erlent

Fengu mun hærra verð­mat eftir að hafa „hvít­þvegið“ heimili sitt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fasteignaverð í San Francisco er með því hæsta í Bandaríkjunum.
Fasteignaverð í San Francisco er með því hæsta í Bandaríkjunum.

Bandarískt par hefur náð sátt við fasteignamatsfyrirtæki sem parið sakaði um að hafa metið heimili sitt undir markaðsvirði vegna þess að bæði eru svört. Fyrirtækið mat húsið á 900 þúsund dollara en það var seinna metið á 1,5 milljón dollara.

Tenisha Tate-Austin og Paul Austin keyptu heimili sitt í San Francisco árið 2016 fyrir um það bil 550 þúsund dollara. Árið 2020 ákváðu þau að endurfjármagna en árið áður, eftir framkvæmdir, hafði húsið verið metið á 1,4 milljón dollara.

Við endurfjármögnuna mat áðurnefnt fyrirtæki húsið hins vegar á aðeins 900 þúsund dollara.

Þau ákváðu því að gera tilraun og fjarlægðu öll ummerki um að svört fjölskylda byggi í húsinu. Þá fengu þau hvíta vinkonu sína til að þykjast eiga húsið og fengu svo annað fyrirtæki til að verðmeta.

Það komst að þeirri niðurstöðu að heimilið væri nærri 1,5 milljón dollara virði.

„Þetta var léttir... svona „Ég sagði það“. En svo upplifir maður bara depurð,“ sagði Tate-Austin í samtali við CBS News árið 2021. Hún sagði sorglegt að þurfa að grípa til ofangreinds úrræðis til að fá rétt mat á húsið.

Parið fór í mál við fyrra fyrirtækið og hefur nú samið um ótilgreindar bætur. Samkvæmt frétt BBC um málið er parið langt í frá það eina sem hefur þurft að grípa til þess að „hvítta“ heimili sitt til að fá rétt verðmat. 

Gögn benda til þess að í hverfum þar sem meirihluti íbúa tilheyrir minnihluta séu heimili oftsinnis vanmetin. Þá ber að geta þess að 92,4 prósent þeirra sem starfa við fasteignamat eru hvítir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×