Enski boltinn

Stuðnings­maður Chelsea fær þriggja ára bann fyrir kyn­þátta­níð í garð Son

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Son Heung-min, leikmaður Tottenham Hotspur og landsliðsmaður Suður-Kóreu.
Son Heung-min, leikmaður Tottenham Hotspur og landsliðsmaður Suður-Kóreu. Sebastian Frej/Getty Images

Thomas Burchell, stuðningsmaður Chelsea, hefur verið dæmdur í þriggja ára bann frá öllum knattspyrnuleikjum á Englandi eftir að hafa beitt Son Heung-Min, leikmann Tottenham Hotspur, kynþáttaníði í leik liðanna þann 14. ágúst síðastliðinn.

Náðist atvikið á myndbandsupptöku og skömmu síðar var staðfest að áðurnefndur Burchell væri sökudólgurinn. Hann gekkst við verknaðinum og hefur nú verið dæmdur í þriggja ára bann sem og að hann fékk sekt upp á 726 Sterlingspund eða rúmlega 120 þúsund krónur.

„Fótbolti er íþrótt ástríðunnar en kynþáttaníð er með engu leyfilegt,“ sagði saksóknarinn Kalshoom Sahah er dómur féll.

Nágrannaslagnum þann 14. ágúst lauk með 2-2 jafntefli en síðan þá hefur gengi liðanna í deildinni verið einkar ólíkt. Tottenham situr í 4. sæti með 45 stig að loknum 25 leikjum á meðan Chelsea er í 10. sæti með 31 stig að loknum 24 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×