Erlent

Friðarverðlaunahafi dæmdur í fangelsi í Belarús

Samúel Karl Ólason skrifar
Alex Bialiatski er sextíu ára gamall. Hann hefur setið inn í 21 mánuð en var dæmdur í tíu ára fangelsi í morgun.
Alex Bialiatski er sextíu ára gamall. Hann hefur setið inn í 21 mánuð en var dæmdur í tíu ára fangelsi í morgun. Viasna

Yfirvöld í Belarús, eða Hvíta-Rússlandi, hafa dæmt Alex Bialiatski til tíu ára fangelsisvistar. Það er samkvæmt Viasna, mannréttindasamtökum sem hann stofnaði en Bialiatski var dæmdur fyrir að hafa fjármagnað mótmæli í gegn alræðisstjórn Alexanders Lúkasjenka, einræðisherra Belarús.

Auk Bialiatski voru þrír aðrir yfirmenn hjá Viasna dæmdir í morgun. Þeir voru dæmdir til sjö, átta og níu ára fangelsisvistar, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Bialiatski og hinir sakborningarnir hafa setið í fangelsi í 21 mánuð.

Bialiatski ávarpaði dóminn í morgun og hvatti yfirvöld í Belarús til að „stöðva borgarastyrjöldina“ þar í landi. Hann sagði einnig augljóst að rannsakendum hefði augljóslega verið skipað að svipta sig og aðra frelsi, sama hvað það kostaði, og stöðva starfsemi Viasna.

Hann fékk friðarverðlaun Nóbels í fyrra fyrir mannréttindabaráttu sína í Belarús, Rússlandi og Úkraínu. 

Í rökstuðningi sem fylgdi ákvörðun Nóbelsnefndarinnar sagði að Bialiatski og samtökin væru „einstakir talsmenn mannréttinda, lýðræðis og friðsamlegrar sambúðar“.

Mótmælin sem um ræðir voru haldin árið 2020, eftir umdeildar kosningar sem Lúkasjenka segist hafa unnið. Niðurstöður kosninganna hafa verið dregnar verulega í efa bæði af stjórnarandstöðunni og alþjóðasamfélaginu.

Einræðisherrann beitti öryggissveitum sínum af mikilli hörku gegn mótmælendum en rúmlega 35 þúsund manns voru handtekin.

Svetlana Tikhanovskaya, sem bauð sig fram gegn Lúkasjenka í áðurnefndum kosningum og segist vera réttkjörinn forseti Belarús, hefur fordæmt úrskurð dómsins í morgun og segir hann skammarlegan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×