Erlent

Kom til á­taka í mót­mælum í kjöl­far lestar­slyssins í Grikk­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Grikklandi vegna lestarslyssins þar sem 43 hið minnsta létu lífið.
Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Grikklandi vegna lestarslyssins þar sem 43 hið minnsta létu lífið. AP

Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu fyrir utan höfuðstöðvar grísku lestarstofnunarinnar í Aþenu í gærkvöldi í kjölfar lestarslyssins þar sem staðfest er að 43 hið minnsta týndu lífi. Margir hafa sagt að einungis hafi verið tímaspursmál hvenær slys sem þetta myndi eiga sér stað.

Mótmæli voru einnig í Þessaloníku og Larissu, nærri slysstaðnum þar sem tvær lestir rákust saman norður af borginni í gær.

Samgönguráðherra landsins sagði af sér embætti í gær vegna málsins og hefur ríkisstjórn Grikklands heitið því að koma á sjálfstæðri rannsóknarnefnd til að tryggja að réttlæti í málinu nái fram að ganga.

Búið er að lýsa yfir þriggja daga þjóðarsorg í Grikklandi vegna slyssins þar sem farþegalest rakst á vöruflutningalest sem varð til þess að mikill eldur kom upp í fremstu vögnunum sem einnig fóru út af sporinu og eyðilögðust.

Um 350 farþegar voru um borð í farþegalestinni, margir hverjir á þrítugsaldri og á leiðinni heim til Þessalóníku eftir að hafa fagnað upphafi lönguföstu grísku rétttrúnaðarkirkjunnar að því er er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Farþegalestin rakst á vöruflutningalest rétt norður af Larissa í gærkvöldi. AP

Forsætisráðherrann Kyriakos Mitsotakis segir að hörmulegum, mannlegum mistökum hafi verið um að kenna og hefur 59 ára stöðvarstjóri í Larissa verið handtekinn vegna gruns um manndráp af gáleysi. Hann neitar sök og segir að um tæknileg mistök hafi verið um ræða.

Félagar í stéttarfélögum lestarstarfsmanna telja að öryggiskerfi hafi ekki virkað í landinu svo árum skiptir og hyggjast þeir leggja niður störf í dag til að mótmæla því sem þeir kalla „opinbera vanrækslu“ í lestarkerfi landsins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×