Fótbolti

Ivan Toney játar sök og gæti verið á leið í langt bann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ivan Toney gæti verið á leið í langt bann fyrir fjöldamörg brot á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins.
Ivan Toney gæti verið á leið í langt bann fyrir fjöldamörg brot á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins. Ryan Pierse/Getty Images

Enski knattspyrnumaðurinn Ivan Toney, framherji Brentford í ensku úrvalsdeildinni, hefur játað sök í flestum ákæruliðum eftir að hann var sakaður um rúmlega 260 brot á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins.

Alls eru brotin, sem eiga að hafa átt sér stað á seinustu fjórum árum, 262 talsins. Toney játar sök í mörgum af þessum tilvikum, en þó ekki öllum.

Enski miðillinn Daily Mail er meðal þeirra sem fjallar um málið, en þar kemur fram að búist sé við því að Toney verði dæmdur í langt bann og að það muni taka gildi áður en yfirstandandi tímabili lýkur. Þar kemur einnig fram að Toney sjálfur vilji helst byrja að afplána bannið sem fyrst þar sem staða Brentford í deildinni sé góð og líkurnar á því að liðið sogist niður í fallbaráttu séu litlar.

Toney var upphaflega ákærður fyrir 232 brot á veðmálareglum enska sambandsins í nóvember á síðasta ári. Þau brot eiga að hafa átt sér stað á árunum 2017-2021, en mánuði síðar bættust 30 brot við ákæruna sem áttu að hafa átt sér stað á árunum 2017-2019.

Framherjinn er langmarkahæsti leikmaður Brentford á tímabilinu með 14 mörk og því væri blóðugt fyrir liðið að missa Toney nú þegar liðið á enn 15 deildarleiki eftir á tímabilinu. Brentford situr í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 35 stig eftir 23 leiki, tíu stigum frá Meistaradeildarsæti og 14 stigum fyrir ofan fallsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×