Fótbolti

Ton­ey kærður af enska knatt­spyrnu­sam­bandinu fyrir brot á veð­mála­reglum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ivan Toney er í vandræðum.
Ivan Toney er í vandræðum. Vísir/Getty

Ivan Toney, leikmaður Brentford, hefur verið kærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir rúmlega tvöhundruð brot á veðmálareglum sambandsins. Brotin eiga að hafa átt sér stað á síðustu fjórum árum

Toney var ekki valinn í enska landsliðshópinn fyrir heimsmeistaramótið í Katar sem hefst á mánudaginn en hann hafði áður greint frá því að hann væri að aðstoða knattspyrnusambandið vegna fyrirspurna þeirra og ásakana um að hann hefði veðjað á leiki í deildinni. 

Meint brot Toney eiga að hafa átt sér stað frá árinu 2017 og allt til ársins 2021. Árin 2017 og 2018 tilheyrði Toney Newcastle en var á láni hjá Shrewsbury Town, Scunthorpe United og Wigan Athletic. Peterborough United keypti Toney árið 2018 þaðan sem hann var svo seldur til Brentford fyrir rúmum tveimur árum.

Þegar ásakanir gagnvart Toney komu fyrst fram tjáði hann sig um þær gegn Twitter og sagðist ekki munu tjá sig um þær fyrr en rannsókn knattspyrnusambandsins væri lokið. Hann hefur nú til 24.nóvember til að bregðast við ákæru sambandsins en alls er Toney ákærður fyri 232 brot á veðmálareglum sambandsins.

Toney var valinn í enska landsliðið fyrir leiki í Þjóðadeildinni í september án þess þó að koma við sögu í leikjum liðsins gegn Ítalíu og Þýskalandi. Sambandið hefur án efa sett Gareth Southgate landsliðsþjálfara stólinn fyrir dyrnar hvað varðar val á hópnum fyrir heimsmeistaramótið.

Ivan Toney á rætur á Jamaíka og er enn gjaldgengur fyrir jamaíska landsliðið sem Heimir Hallgrímsson þjálfar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×