Innlent

Kåvepenin og streptókokka-heimapróf loksins væntanleg til landsins

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Gríðarlega margir hafa reynt að kaupa heimapróf sem greinir streptókokkasýkingu en án árangurs.
Gríðarlega margir hafa reynt að kaupa heimapróf sem greinir streptókokkasýkingu en án árangurs. Getty

Heimapróf sem greina streptókokkasýkingu, sem framkvæmdastjóri verslanasviðs Lyfju, segir að spurt sé um „úr öllum áttum“ eru væntanleg til landsins um miðja næstu viku. Þau hafa verið uppseld í margar vikur.

Sú bylgja streptókokkasýkinga sem nú herjar á landsmenn hefur verið sérstaklega erfið viðureignar. Sóttvarnalæknir segir að í yfirstandandi bylgju hafi fleiri sýkst alvarlega en önnur ár.

Erfiðlega hefur reynst að nálgast viðeigandi sýklalyf vegna fjölda þeirra sem hafa sýkst hér á landi og í Evrópu.

Sýklalyfið Kåvepenin, sem notað er til að vinna bug á streptókokkasýkingum, hefur til að mynda verið ófáanlegt í einhvern tíma. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir í samtali við fréttastofu að nú horfi til betri vegar því fyrri hluti sendingar af Kåvepenin sé væntanlegur nú síðdegis og svo restin á morgun.

Þá er lyfið Cotrim sem notað er við streptókokkasýkingu í meltingarvegi væntanlegt til landsins í vikunni en heilbrigðisstarfsfólk hefur þurft að skrifa upp á undanþágulyf vegna skorts á Kåvepenin.

Þórbergur Egilsson, framkvæmdastjóri verslanasviðs Lyfju, fagnar því að heimaprófin séu væntanleg um miðja næstu viku enda sé eftirspurnin gríðarleg.

„Við höfum verið að flytja inn streptókokkapróf – heimapróf – sem seldust upp fyrir nokkrum vikum. Við erum síðan að fá meira, góða sendingu, og við ættum að vera komin með í verslanir okkar hjá Lyfju um eða upp úr miðja næstu viku.“

Prófin eru tiltölulega einföld í notkun að sögn Þórbergs.

„Þetta er strokupróf sem þú tekur ofan í kok, mjög einfalt í notkun, og gefur mjög áreiðanlega niðurstöðu. Þú átt þá að geta haft samband við lækni í kjölfarið ef niðurstaða er jákvæð sem á þá að geta brugðist við.“

Þórbergur segir fjölmargar þjóðir hafi verið í vandræðum með að útvega prófin - eftirspurnin sé gríðarleg.

„Það er spurt úr öllum áttum.“


Tengdar fréttir

Bylgja streptó­kokka á upp­leið og sýkingin svæsnari en áður

Sú bylgja streptókokka sem nú herjar á landsmenn er enn á uppleið og veldur alvarlegri sýkingum en áður. Þetta segir Guðrún Aspelund, sóttvarnalæknir. Það sé mikilvægt að foreldrar barna með sýkinguna hlusti á innsæið og grípi inn í ef þeir fái á tilfinninguna að sýking barna þeirra sé að þróast til verri vegar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×