Tottenham hafði betur í Lundúnaslagnum og Chelsea í frjálsu falli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Harry Kane fagnar hér marki sínu í dag.
Harry Kane fagnar hér marki sínu í dag. Vísir/Getty

Tottenham hafði betur gegn Chelsea í Lundúnaslag dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Chelsea hefur aðeins unnið einn deildarleik síðan í desember.

Það er alltaf spenna fyrir Lundúnaslagi og leikurinn í dag var engin undantekning. Pierre Emil Hojbjerg skaut í stöng í fyrri hálfleik og undir lok hálfleiksins var Hakim Ziyech sýnt rauða spjaldið en það svo dregið til baka eftir að dómarinn fór og skoðaði atvikið í skjánum.

Í síðari hálfleik voru það hins vegar heimamenn sem tóku frumkvæðið. Oliver Skipp skoraði frábært mark strax á fyrstu mínútu hálfleiksins og Tottenham komið í 1-0.

Chelsea spýtti í lófana en komst frekar lítið áleiðis. Harry Kane tvöfaldaði forystu Tottenham á 82.mínútu þegar hann skoraði mark á fjærstönginni eftir hornspyrnu.

Þetta var of mikið fyrir Chelsea. Tottenham fagnaði 2-0 sigri en þetta er fyrsti deildarsigur liðsins á Chelsea í fimm ár.

Chelsea er hins vegar í frjálsu falli í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er í 10.sæti deildarinnar og hefur aðeins unnið einn leik síðan 27.desember. Graham Potter situr vafalaust valtur í sessi í stjórastólnum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira