Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru lausir hinn 1. nóvember þegar lífskjarasamningarnir svo kölluðu sem gerðir voru í apríl 2019 runnu sitt skeið. Undirbúningur að gerð nýrra kjarasamninga hófst strax í fyrra haust og hinn 3. desember skrifuðu öll aðildafélög Starfsgreinasambandsins nema Efling undir nýjan skammtíma kjarasamning sem gildir til 31. janúar 2024.
Samningurinn var afturvirkur og gilti frá 1. nóvember og var það í fyrsta sinn í langan tíma sem nýr kjarasamnngur á almenna vinnumarkaðnum tók beint við af samningi sem var að renna út. Nokkrum dögum síðar hinn 12. desember samþykktu VR ásamt iðnaðar- og tæknimönnum að undirrita svipaðan samning og SGS hafði gert.
Uppfært: Pallborðinu er lokið en upptöku af því má sjá hér. Textalýsingu má finna neðst í greininni.
Fljótlega lá fyrir að Efling gat ekki sætt sig við SGS samninginn. Eftir árangurslausar viðræður félagsins við Samtök atvinnulífsins lagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hinn 26. janúar fram miðlunartillögu í deilunni. Efling neitaði embættinu um aðgang að félagatali sínu til að hægt yrði að greiða um hana atkvæði. Síðan þá hefur allt logað í málaferlum fyrir héraðsdómi, Félagsdómi og Landsrétti.
Vinnumarkaðsráðherra setti Ástráð Haraldsson héraðsdómara í embætti ríkissáttasemjara í deilunni hinn 14. febrúar vegna vantrausts forystu Eflinar á Aðalsteini. Vonir voru bundnar við þriggja daga samningalotu undir hans stjórn frá síðasta föstudegi til sunnudags en það slitnaði upp úr þeim. Eftir það samþykktu aðildarfyrirtæki SA verkbann á alla félaga Eflingar og Efling féll frá boðun þriðju verkfallslotu sinni. Fyrri verkfallsaðgerðir standa hins vegar enn yfir.
Þannig er staðan í dag þegar forystufólk Eflingar og SA mætast í beinni útsendingu með Heimi Má Péturssyni fréttamanni í Pallborðinu á Vísi og Stöð 2 Vísi klukkan 14 í dag. Hægt er að fylgjast með útsendingunni í spilaranum hér að ofan eða í vaktinni, þar sem við munum greina frá framgangi mála, hér að neðan.