Erlent

Enn einni Teslunni ekið á neyðar­bif­reið vestan­hafs

Kjartan Kjartansson skrifar
Flak Tesla Model 3-bifreiðar sem var ekið á kyrrstæðan slökkviliðsbíl á hraðbraut í norðanverðri Kaliforníu á aðfararnótt laugardags.
Flak Tesla Model 3-bifreiðar sem var ekið á kyrrstæðan slökkviliðsbíl á hraðbraut í norðanverðri Kaliforníu á aðfararnótt laugardags. AP/Slökkviliðið í Contra Costa-sýslu

Ökumaður Tesla-bifreiðar lést og farþegi slasaðist alvarlega þegar henni var ekið á kyrrstæða slökkvibifreið á hraðbraut í norðanverðri Kaliforníu í Bandaríkjunum á laugardag. Brunabílnum hafði verið lagt til að vernda slökkviliðsmenn á vettvangi annars slyss. Fjöldi sambærilegra slysa þar sem Teslur koma við sögu hefur átt sér stað vestanhafs.

Fjórir slökkviliðsmenn voru í stigabílnum sem var lagt skáhallt yfir akrein með kveikt á neyðarljósum þegar Tesla af gerðinni Model S hafnaði á honum á milliríkjahraðbraut 680 um klukkan fjögur aðfararnótt laugardags að staðartíma. Þeir hlutu minniháttar meiðsl, að sögn aðstoðarslökkviliðsstjóra Contra Costa-sýslu. Draga þurfti brunabílinn af vettvangi.

Ökumaður Teslunnar var úrskurðaður látinn á vettvangi. Klippa þurfti alvarlega slasaðan farþega út úr bifreiðinni, að sögn AP-fréttastofunnar.

Talsmaður umferðarlögreglu segir ekki ljóst hvort að ökumaður Teslunnar hafi verið ölvaður eða hvort hann hafi ekið með hjálp sjálfstýringar bifreiðarinnar. Tesla innkallaði á fjórða hundrað þúsunda slíkra bifreiða á fimmtudag vegna galla í sjálfstýringarbúnaði þeirra.

Gallarnir sem leiddu til þess að samgönguyfirvöld þrýstu á Tesla að innkalla bílana tengjast hvernig sjálfstýringin bregst við gatnamótum og hraðatakmörkunum. Bandarísk yfirvöld hafa hins vegar einnig til rannsóknar hvernig sjálfsstýringin nemur og bregst við neyðarbifreiðum sem er lagt á hraðbrautum. Að minnsta kosti fjórtán Teslur sem ekið var með hjálp sjálfstýringar hafa ekið á neyðarbíla svo vitað sé.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×