Fjórir slökkviliðsmenn voru í stigabílnum sem var lagt skáhallt yfir akrein með kveikt á neyðarljósum þegar Tesla af gerðinni Model S hafnaði á honum á milliríkjahraðbraut 680 um klukkan fjögur aðfararnótt laugardags að staðartíma. Þeir hlutu minniháttar meiðsl, að sögn aðstoðarslökkviliðsstjóra Contra Costa-sýslu. Draga þurfti brunabílinn af vettvangi.
Ökumaður Teslunnar var úrskurðaður látinn á vettvangi. Klippa þurfti alvarlega slasaðan farþega út úr bifreiðinni, að sögn AP-fréttastofunnar.
Talsmaður umferðarlögreglu segir ekki ljóst hvort að ökumaður Teslunnar hafi verið ölvaður eða hvort hann hafi ekið með hjálp sjálfstýringar bifreiðarinnar. Tesla innkallaði á fjórða hundrað þúsunda slíkra bifreiða á fimmtudag vegna galla í sjálfstýringarbúnaði þeirra.
Gallarnir sem leiddu til þess að samgönguyfirvöld þrýstu á Tesla að innkalla bílana tengjast hvernig sjálfstýringin bregst við gatnamótum og hraðatakmörkunum. Bandarísk yfirvöld hafa hins vegar einnig til rannsóknar hvernig sjálfsstýringin nemur og bregst við neyðarbifreiðum sem er lagt á hraðbrautum. Að minnsta kosti fjórtán Teslur sem ekið var með hjálp sjálfstýringar hafa ekið á neyðarbíla svo vitað sé.