Erlent

Sex á­kærðir eftir að á­tján flótta­menn fundust látnir í sendi­ferða­bíl

Árni Sæberg skrifar
Aðstæður í kassa sendiferðabílsins voru hræðilegar.
Aðstæður í kassa sendiferðabílsins voru hræðilegar. Stringer/Getty

Saksóknari í Búlgaríu hefur ákært sex manns fyrir mansal eftir að átján afganskir flóttamenn fundust látnir aftan í sendiferðabíl í nágrenni við Sófíu. 52 flóttamönnum hafði verið troðið í sendiferðabílinn „eins og í sardínudós,“ að sögn saksóknara.

Sendiferðabíllinn var skilinn eftir á vegslóða við þorpið Lokorsko, sem er nálægt höfuðborginni Sófíu, á föstudag eftir að ökumaður bílsins og samverkamaður hans tóku eftir því að margir þeirra sem þeir fluttu voru orðnir ringlaðir af súrefnisleysi og sumir þegar látnir, að því er segir í frétt Reuters um málið.

Að sögn Borislav Sarafov, yfirmanni rannsóknarlögreglu Búlgaríu og aðstoðarríkissaksóknara, neitaði ökumaður bílsins að stöðva för sína þrátt fyrir að hafa heyrt langvarandi og öflug högg á kassa bílsins.

Málið hefur vakið mikinn ugg í Búlgaríu og víðar en það er eitt það versta sinnar tegundar á landleiðinni yfir Balkanskaga til meginlands Evrópu.

Létust hægt og á kvalafullan hátt

Sarafov segir að fórnarlömb mannanna hafi látist hægt og á kvalafullan hátt aftan í sendiferðabílnum.

„Þetta mál bendir til gríðarlegrar ósvífni og sýnir fram á það að litið er á flóttafólk aðeins sem vöru til að flytja frá einum stað á annan, burtséð frá því hvort það sé lífs eða liðið,“ er haft eftir honum.

Hinir flóttamennirnir sem fundust í sendiferðabílnum, 32 talsins, eru sagðir í stöðugu ástandi á sjúkrahúsi.

Einnig ákærðir fyrir morð

Bílstjórinn og sá sem sat í farþegasæti sendiferðabílsins eru ákærðir fyrir morð sem og fyrir mansal. Fjórir samverkamenn þeirra eru ákærðir aðeins fyrir mansal. Þrír þeirra eru í haldi lögreglu og evrópsk handtökutilskipun hefur verið gefin út til höfuðs eins þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×