Erlent

Sektaður fyrir að auglýsa eftir miðaldra konu

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Fort Pienc hverfið í miðborg Barcelona þar sem Javier Marcos rekur skóverslun sína.
Fort Pienc hverfið í miðborg Barcelona þar sem Javier Marcos rekur skóverslun sína. Jeff Greenberg/Getty Images

Eigandi skóbúðar í Barcelona hefur verið sektaður um andvirði 1.200 þúsund íslenskra króna fyrir að auglýsa eftir miðaldra konu til að starfa í búðinni.

„Kona yfir fertugt“ óskast til starfa

Skókaupmaður í miðborg Barcelona auglýsti á dögunum eftir starfskrafti í stað konunnar sem staðið hafði vaktina árum saman í búðinni hans. Javier ákvað, af fenginni reynslu, að róa á sömu mið og auglýsa eftir „konu yfir fertugu“.

Sekur um mismunun

En hann hefði betur sleppt því. Vinnueftirlitið hafði samband og sagði að í auglýsingu hans fælist mismunun, ekki einföld, heldur tvöföld; kynja- og aldurstengd.

Javier Marcos segir að aldrei hafa vakað fyrir sér að mismuna fólki. Hann vildi bara gefa fólki sem hefði færri tækifæri til að finna vinnu, en aðrir hópar, aukin tækifæri, auk þess sem hann byggði á eigin reynslu um hvað hann vildi.

Fékk háa sekt

Hann fjarlægði auglýsinguna í snatri eftir athugasemdir Vinnueftirlitsins, en allt kom fyrir ekki. Hann fékk sektarboð skömmu síðar vegna brota á lögum um mismunun. Slíkt væri aðeins leyfilegt þegar starfið krefðist þess, svo sem eins og að sinna baðvörslu í sundlaugum eða líkamsræktarstöðvum. Sektarupphæðin nemur 7.500 evrum, andvirði tæplega 1.200 þúsund íslenskra króna. Það er Javier huggun harmi gegn að greiði hann sektina innan mánaðar, sleppur hann með 700.000 krónur. Það eru samt miklir peningar fyrir lítinn rekstur, segir Javier.

Ekki sama Jón og séra Jón

Hann bendir jafnframt á að það skjóti skökku við að lítill kaupmaður eins og hann sé sektaður fyrir að auglýsa eftir einni konu, á sama tíma og slökkvilið Barcelona reki umfangsmikla auglýsingaherferð á götum og torgum borgarinnar, þar sem konur séu hvattar til þess að sækja um í slökkviliði borgarinnar.

„Hver er í grunninn, munurinn á litlu auglýsingunni minni og herferð slökkviliðsins?“ spyr Javier Marcos og lái honum hver sem vill.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×