Erlent

Saka Kín­verja um lygar sem vísa á­sökunum á bug

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Verið er að rannsaka meinta njósnabelginn sem sóttur var undan strönd Suður-Karólínu fyrr í vikunni.
Verið er að rannsaka meinta njósnabelginn sem sóttur var undan strönd Suður-Karólínu fyrr í vikunni. FBI via AP

Bandarísk yfirvöld halda að óþekktir hlutir sem skotnir voru á flugi yfir Norður-Ameríku í gær og á föstudag hafi verið einhvers konar blöðrur. Bandaríkjamenn saka Kínverja um lygar en vika er síðan Bandaríkjamenn skutu niður meintan njósnabelg Kínverja.

Mikill viðbúnaður hefur verið í Bandaríkjunum síðan meintur njósnabelgur Kínverja var skotinn niður þar sem hann sveif utan ströndum Suður-Karólínu fyrir um viku síðan. Yfirvöld hafa ekki staðfest að hlutirnir sem skotnir voru niður um helgina, í Kanada og í Alaska-ríki, hafi verið á vegum Kínverja.

Lofthelgi var lokað yfir Montana í norðurhluta Bandaríkjanna í nótt og orrustuþotur sendar á vettvang. Könnun leiddi í ljós að ekkert torkennilegt væri á seyði en talið er að sérkennilega hreyfingu á ratsjám megi rekja til bilunar.

Chuck Schumer, forseta fulltrúadeildarinnar og leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, telur að Kínverjar hafi yfir að ráða stórum hópi njósnabelgja - líklega um heim allan. Aðferðin hafi lengi verið við lýði og hann spyr hvers vegna tekið hafi svo langan tíma að komast á snoðir um meint áform Kínverja: „Ég held að Kínverjar hafi verið gripnir glóðvolgir við lygar og þetta lítur mjög illa út fyrir þá.“

Kínversk yfirvöld neita því að hafa stundað njósnir. Belgurinn, sem skotinn var niður yfir Suður-Karólínu, hafi verið nýtt til að safna veðurupplýsingum. Eins og fyrr segir liggur ekki fyrir hvers eðlis hlutirnir sem skotnir voru niður um helgina voru, að því er fram kemur hjá Breska ríkisútvarpinu.


Tengdar fréttir

Skutu niður „óþekktan hlut“ yfir Kanada

Óþekktur hlutur var skotinn niður í kanadískri lofthelgi nú í kvöld. Vika er liðin frá því að Bandaríkjaher skaut niður loftbelg sem þeir töldu vera kínverskan njósnabelg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×