Erlent

Íslenski hópurinn tekur til hendinni í Tyrklandi

Máni Snær Þorláksson skrifar
Íslenski hópurinn flutti búðir sínar í morgun.
Íslenski hópurinn flutti búðir sínar í morgun. Landsbjörg

Hópur björgunarsveitarmanna frá Íslandi lenti í Tyrklandi í gærnótt. Hópurinn er nú búinn að koma sér fyrir við Hatay Expo svæðið í Antakya borg, þar sem yfirstjórn aðgerða á svæðinu er.

Íslenski hópurinn setti upp búðir við Hatay Stadium, leikvang knattspyrnuliðsins Hatayspor, í gær. Í tilkynningu frá slysavarnafélaginu kemur fram að samgöngur milli leikvangsins og Hatay Expo hafi verið erfiðar og tekið langan tíma. Því var ákveðið að taka niður búðir hópsins við leikvanginn í morgun og setja þær upp við Hatay Expo.

Hér má sjá svæði alþjóðlegra sveita við Hatay Expo.Landsbjörg

Umfangsmikil aðgerð

Íslendingarnir er nú komnir í fulla vinnu í stjórnstöðinni í Hatay Expo. Þar vinna þeir við samhæfingu og stjórnun aðgerða ásamt heimamönnum og fólki frá Hollandi, Sviss, Austurríki og Grikklandi. Á svæðinu eru fjölmennar björgunarsveitir frá fleiri löndum. Meðal annars eru 120 manns frá Bretlandi og 150 frá Kína.

Íslenski hópurinn er byrjaður að hjálpa í Tyrklandi.

„Þetta er mjög umfangsmikil aðgerð og eyðileggingin er mikil í héraðinu og Antakya. Þegar hópurinn lenti í Gaziantep í gær var ekki mikla eyðileggingu að sjá, en á ferð þeirra niður til Hatay héraðs varð eyðileggingin sífellt meiri. Hópurinn varð vitni að því að fólki var bjargað út úr húsarústum á leiðinni, og jafnframt þar sem verið var að jarða þá sem höfðu fundist látnir,“ segir í tilkynningu frá slysavarnafélaginu.

Þá kemur fram að í gær hafi alþjóðlegu björgunarsveitunum tekist að bjarga 24 manns lifandi úr húsarústum. Tekist hefur svo að bjarga 14 manns á lífi í dag. Tölur látinna liggja ekki fyrir.

Búðir íslenska hópsins að næturlagi.Landsbjörg


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×