Erlent

Haley sögð munu til­kynna um for­seta­fram­boð 15. febrúar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Haley var áður sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar og ríkisstjóri Suður-Karólínu.
Haley var áður sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar og ríkisstjóri Suður-Karólínu. AP/Charlie Neibergall

Nikki Haley, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, er sögð munu tilkynna um framboð sitt til forseta 15. febrúar næstkomandi. 

Haley, 51 árs, var ríkisstjóri Suður-Karólínu áður en hún varð sendiherra og samkvæmt erlendum miðlum hyggjst hún tilkynna um framboð sitt í Charleston.

Hún studdi öldungadeildarþingmanninn Marco Rubio í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 2016 en var engu að síður skipuð sendiherra við SÞ af Donald Trump, þegar hann tók embætti.

Haley og Trump virðast eiga í ágætu sambandi, þrátt fyrir að hún hafi gagnrýnt framgöngu hans í tengslum við innrásina í þinghúsið í Washington.epa/Michael Reynolds

Haley gagnrýndi forsetann fyrrverandi harðlega í aðdraganda innrásarinnar í þinghúsið 6. janúar 2021 og sagði framgöngu hans í kjölfar ósigursins fyrir Joe Biden myndu verða harðlega dæmda af sögunni.

Haley sagði engu að síður í fyrra að hún myndi ekki bjóða sig fram ef Trump færi fram en hefur dregið í land síðustu mánuði. 

Í viðtali við Fox News í síðustu viku sagði hún að menn þyrftu að svara tveimur spurningum þegar þeir tækju ákvörðun um að bjóða sig fram; hvort þörf væri á nýrri forystu og hvort þú værir manneskjan til að leiða þá forystu.  

Haley sagði að hvað sig varðaði væru svörin já og já.

Trump hefur greint frá því að hafa átt samtal við Haley þar sem hún greindi honum frá áhuga sínum á framboði. Hann sagðist hafa ráðlagt henni að fylgja hjarta sínu.

Meðal annarra líklegra frambjóðenda eru Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, og Mike Pence, fyrrverandi varaforseti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×