Fjöldi látinna hefur hækkað hratt í dag. Margir hinna særðu er enn skráðir í alvarlegu ástandi og þykir líklegt að tala látinna muni hækka enn frekar.
Talibanar í Pakistan hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni, sem er ein mannskæðasta hryðjuverkaárás í Pakistan um árabil.
AP fréttaveitan segir að verið sé að rannsaka hvernig árásarmaðurinn komst inn í moskuna þar sem hún er á öryggissvæði sem inniheldur opinberar stofnanir. Árásum Talibana hefur farið fjölgandi á undanförnum mánuðum en leiðtogar Talibana slitu sig í nóvember frá vopnahléi sem þeir höfðu gert við stjórnvöld í Pakistan.
Fréttaveitan hefur eftir Sarbakaf Mohamand, einum af leiðtogum Talibana í Pakistan, um að árásarmaðurinn hafi verið á þeirra vegum. Ekki hefur náðst í talsmann samtakanna.
Rúmlega þrjú hundruð manns voru í bænahúsinu og voru fleiri þar fyrir utan, á leiðinni inn, þegar maðurinn sprengdi sig í loft upp. Þak hússins hrundi á fólk sem skaðaðist ekki í sprengingunni sjálfri.
Sjá einnig: Þak mosku hrundi er maður sprengdi sig í loft upp
Peshawar er í norðurhluta Pakistans, nærri landamærum Afganistans, og eru Talibanar umsvifamiklir á svæðinu. Árásir Talibana hafa verið tíðar í borginni.
Talibanar í Pakistan kallast Tehreek-e-Taliban Pakistan eða TTP og hafa staðið í blóðugum átökum við öryggissveitir Í Pakistan og óbreytta borga í minnst fimmtán ár. Hreyfingin er nátengd en þó aðskilin Talibönum í Afganistan.