Erlent

Þak mosku hrundi er maður sprengdi sig í loft upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Fórnarlömb árásinnar hafa verið flutt á sjúkrahús með ýmsu móti.
Fórnarlömb árásinnar hafa verið flutt á sjúkrahús með ýmsu móti. AP/Muhammad Sajjad

Minnst 27 eru látnir og 147 særðir eftir sprengjuárás í mosku í Peshawar í Pakistan í morgun. Maður er sagður hafa sprengt sig í loft upp á bænartíma þegar moskan var full af fólki.

Um 150 manns voru í moskunni og þar á meðal margir lögregluþjónar, þar sem bænahúsið er nærri lögreglustöð. Tölur um látna og særða eru enn á miklu reiki.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en samkvæmt AP fréttaveitunni hafa Talibanar verið sakaðir um árásir sem þessar á liðnum árum.

Hér að neðan má sjá myndband frá Peshawar í morgun. Borgin er í norðurhluta Pakistans, nærri landamærum Afganistans.

Fréttaveitan hefur eftir lögreglustjóranum á svæðinu að sprengingin hafi verið svo öflug að þak moskunnar hafi hrunið. Margir hafi særst við það. Einn lögregluþjónn sem var í moskunni en slapp óskaddaður út segist hafa heyrt marga kalla eftir aðstoð úr rústunum.

Margir hinna særðu eru sagðir í alvarlegu ástandi og þykir líklegt að tala látinna muni hækka þegar líður á daginn.

Shahbaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, hefur heitið því að þeir sem beri ábyrgð á árásinni verði dregnir til ábyrgðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×