Innlent

Heimildin óumdeild og ekki háð samþykki deiluaðila

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ásmundur segir heimild ríkissáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu óumdeilda.
Ásmundur segir heimild ríkissáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu óumdeilda.

„Það er alveg ljóst að sáttasemjari hefur þessa heimild til að leggja fram miðlunartillögu og þarf ekkert samþykki deiluaðila til þess. Það er staðreyndin.“

Þetta segir Ásmundur Stefánsson, fyrrverandi ríkissáttasemjari og fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands við Morgunblaðið, um þá ákvörðun Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara að leggja fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Ásmundur gagnrýnir ályktun ASÍ um miðlunartillöguna, þar sem sagði meðal annars að ríkissáttasemjari ætti ekki að leggja fram miðlunartillögu nema hún hefði að minnsta kosti „þegjandi samþykki“ beggja aðila. Þetta sé hvergi að finna í lögum.

„Það er ekkert nýtt í því að lögð sé fram miðlunartillaga, bara ekkert,“ segir Ásmundur.

Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur sagði á Sprengisandi í gær að á síðustu 40 árum hefðu verið lagðar fram 30 miðlunartillögur en þriðjungur þeirra hefði verið felldur. Ásmundur lagði eina slíka fram á sínum tíma, sem var felld með 90 prósent atkvæða, en hann segir hana hafa lagt grunn að áframhaldandi viðræðum sem enduðu með samningi.

„Það hafa verið samþykktar ályktanir og gefnar út yfirlýsingar um það að sáttasemjari hafi ekki lagalegt umboð til að koma með miðlunartillögu. Ég verð í rauninni að lýsa undrun minni á því. Staðreyndin er að sáttasemjari hefur þessa heimild samkvæmt lögum og það fer eftir hans mati á stöðu deilunnar hvort hann telur rétt að leggja fram miðlunartillögu eða ekki. Það er engin krafa um það að aðilarnir séu sammála honum,“ segir Ásmundur.

Héraðsdómur Reykjavíkur mun úrskurða um það í dag hvort Eflingu ber að afhenda ríkissáttasemjara félagalista sinn svo hægt sé að gang til atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna. Hún felur í sér sama skammtímasamning til handa Eflingarfélögum og gerður var við Starfsgreinasambandið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.