Erlent

Mynd­band sýnir á­rásina á Pelosi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Myndbandið er úr búkmyndavél lögreglumanna sem mættir voru á vettvang.
Myndbandið er úr búkmyndavél lögreglumanna sem mættir voru á vettvang. San Francisco Police Department via AP

Lögreglan í Bandaríkjunum hefur birt myndband af árás innbrotsþjófs á eiginmann Nancy Pelosi, fyrrverandi fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Innbrotsþjófurinn réðst að hinum 82 ára gamla Paul Pelosi með hamri.

Maðurinn braust inn á heimili Pelosi í október á síðasta ári. Hann var vopnaður hamri og braut rúðu á húsi hjónanna. Í kjölfarið fór hann inn og á að hafa öskrað „hvar er Nancy,“ sem ekki var heima þegar brotist var inn.

Myndbandið er úr búkmyndavél lögreglumanns sem var mætt á vettvang þegar árásarmaðurinn, David DePape, réðst á Pelosi. Á myndbandinu sést þegar lögreglumenn krefja DePape um að sleppa hamrinum og hann svarar: „Uh, nei“ (e. „Uh, nope“) og ræðst á Pelosi í kjölfarið.

Myndbandið er ekki fyrir viðkvæma.

Hinn 82 ára gamli Paul Pelosi höfuðkúpubrotnaði og slasaðist illa á hægri hönd. Síðustu mánuði hefur hann verið í endurhæfingu en talið er að hann muni ná sér að fullu.

AP fréttaveitan segir árásina vekja upp minningar um árásina á þinghúsið þann 6. janúar 2021. Þá hafi stuðningsmenn Donalds Trump, fyrrverandi forseta, sem reyndu að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna 2020, leitað að Nancy Pelosi í þinghúsinu eftir þau ruddust þar inn. 

Fjölmiðlar ytra hafa greint frá því að DePape hafi sagt ögregluþjónum að hann hafi verið í „sjálfsmorðsverkefni.“ Hann hafi haft lista af stjórnmálamönnum sem hann vildi ráðast til að berjast gegn „lygunum frá Washington“.

Þegar hann braust inn á heimili Pelosi kom hann að Paul Pelosi sofandi á efri hæð heimilis þeirra. DePape er sagður hafa spurt Paul hvar eiginkona hans væri og þegar hann fékk svarið að hún væri ekki heima, reyndi DePape að binda Paul Pelosi og sagðist ætla að bíða eftir henni. 

Paul Pelosi fékk leyfi DePape til að nota klósettið þar sem sími hans var í hleðslu. Hann notaði símann til að hringja í Neyðarlínuna en DePape hlustaði þó á símtalið og sagði Paul Pelosi að kynna sig sem vin fjölskyldunnar. Paul sagði þó einnig að hann þekkti DePape ekki.

Með því að tala undir rós tókst Paul að sannfæra þann sem hann talaði við um að hann þyrfti lögregluaðstoð og voru lögregluþjónar sendir á vettvang. Þegar þá bar að garði komu þeir að Paul Pelosi og DePape, þar sem þeir voru að berjast um hamarinn. DePape náði hamrinum og sló Paul í höfuðið.

Lögreglan hefur lýst árásinni á þann veg að hún hafi næstum því kostað Paul Pelosi lífið.


Tengdar fréttir

Tom Hanks var einnig á „dauða­lista“ á­rásar­manns Pelosi

Maðurinn sem sakaður er um að hafa ráðist á eiginmann Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, með hamri í lok október ætlaði sér einnig að ráðast á fleiri þekkta einstaklinga. Í hóp þeirra var bandaríski stórleikarinn Tom Hanks.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.