Erlent

Tom Hanks var einnig á „dauða­lista“ á­rásar­manns Pelosi

Atli Ísleifsson skrifar
David DePape árið 2013. Hann er grunaður um tilraun til manndráps með árás sinni á Paul Pelosi í Kaliforníu í október.
David DePape árið 2013. Hann er grunaður um tilraun til manndráps með árás sinni á Paul Pelosi í Kaliforníu í október. AP

Maðurinn sem sakaður er um að hafa ráðist á eiginmann Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, með hamri í lok október ætlaði sér einnig að ráðast á fleiri þekkta einstaklinga. Í hóp þeirra var bandaríski stórleikarinn Tom Hanks.

Þetta kom fram þegar lögreglumaðurinn sem yfirheyrði hinn meinta árásarmann, David DePape, gaf skýrslu í dómsal í gær. Sagði hann að á „dauðalista“ árásarmannsins hafi einnig verið að finna Hunter Biden, son Joe Biden Bandaríkjaforeta, og Demókratann Gavin Newson, ríkisstjóra Kaliforníu, auk Tom Hanks.

DePape er ákærður í sex liðum, meðal annars fyrir tilraun til manndráps vegna árásarinnar á Paul Pelosi þann 28. október síðastliðinn. DePape hefur neitað sök í öllum ákæruliðum.

Stórleikarinn Tom Hanks á frumsýningu fyrr í mánuðinum.AP

Dómari mat það sem svo að lokinni fjögurra tíma skýrslugjöf að sannanir væru nægar til að halda réttarhöldum áfram. Fram kom í máli saksóknara að DePape hafi ætlað sér að taka Nancy Pelosi í gíslingu, en að hún hafi verið í höfuðborginni Washington DC þegar ráðist var inn á heimilið.

Í frétt BBC segir að símtal hins 82 ára Paul Pelosi til neyðarlínunnar hafi verið spilað í dómsal í gær. Kom þar fram að hann hafi ekki þekkt til árásarmannsins.

Lögregla bar að garði skömmu áður en DePape barði Pelosi með hamri í höfuðið þannig að höfuðkúpa hans brotnaði.

Nancy Pelosi og eiginmaður hennar Paul Pelosi.AP

Hamarinn sem notaður var í árásinni var sýnt sem sönnunargagn í dómsalnum í gær og þá voru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna sem komu á vettvang einnig sýndar. Mátti þar sjá lögreglumenn krefja DePape um að sleppa hamrinum. Hann sagði þá: „Uh, nei“ (e. „Uh, nope“) og barði svo Pelosi í höfuðið með hamrinum.

Réttarhöldum í málinu verður fram haldið þann 28. desember næstkomandi.


Tengdar fréttir

Pelosi stígur til hliðar eftir tæplega tveggja áratuga forystu

Nancy Pelosi, fráfarandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sækist ekki eftir því að leiða Demókrataflokkinn í deildinni á komandi kjörtímabili. Hún hefur verið í forystu flokksins í neðri deild þingsins í nærri því tuttugu ár.

Árásarmaðurinn öskraði „Hvar er Nancy?“

Maðurinn sem braust inn á heimili Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í nótt og réðst á eiginmann hennar með hamri var að leita að henni. Heimildarmenn fjölmiðla vestanhafs segja manninn hafa öskrað: „Hvar er Nancy?“ þegar hann réðst á Paul Pelosi. 

Brotist inn á heimili Pelosi og ráðist á eiginmann hennar

Paul Pelosi, eiginmaður Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, varð fyrir árás eftir að maður braust inn á heimili þeirra hjóna í San Francisco. Paul var fluttur á sjúkrahús er talið að hann muni ná sér að fullu en Nancy var ekki á heimilinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×