Erlent

Myrti meðhjálpara með sveðju og særði prest

Samúel Karl Ólason skrifar
Maður vopnaður sveðju myrti einn og særði minnst þrjá á Spáni í gær.
Maður vopnaður sveðju myrti einn og særði minnst þrjá á Spáni í gær. EPA/A. Carrasco Ragel

Maður vopnaður sveðju myrti meðhjálpara og særði prest alvarlega í árásum við tvær kirkjur í borginni Algeciras á Spáni í gærkvöldi. Þrír aðrir eru sagðir særðir en mögulegt er að árásirnar verði skilgreindar sem hryðjuverk en árásarmaðurinn er í haldi lögreglu.

Maðurinn réðst fyrst á prest við kirkjuna Maria Auxiliadora y San Isidro um klukkan sjö í gær. Áður en hann réðst á prestinn byrjaði hann að hræða aðra kirkjugesti með ógnandi hegðun, samkvæmt frétt El Mundo og öskraði hann á fólk að yfirgefa kaþólsku kirkjuna. Hann fór svo út en sneri aftur nokkru síðar með sveðju og réðst á prestinn og særði hann alvarlega.

Þá gekk árásarmaðurinn í um fimm mínútur þar til hann kom að annarri kirkju. Meðhjálpari í kirkjunni flúði út á götu en árásarmaðurinn elti hann og myrti með sveðjunni.

Presturinn er sagður í stöðugu ástandi.

Í frétt El Mundo segir að árásarmaðurinn heitir Yasin Kanza og sé 25 ára gamall. Hann er frá Norður-Afríku og stóð til að vísa honum úr landi á næstunni. Miðillinn segir enn fremur að hann hafi verið undir eftirliti lögreglunnar.

Algeciras er bær á Suður-Spáni, skammt frá Gíbraltar.

El Mundo segir að Kanza sé talinn í ójafnvægi og þykir nokkuð víst að hann hafi verið einn að verki. Kanza sagði ekkert þegar hann var handtekinn en streittist á móti við handtökuna. Heimildarmaður El Mundo segir hann hafa brosað eftir að hann var handtekinn. Verið er að rannsaka hvort hann hafi orðið fyrir áhrifum frá hryðjuverka- og/eða öfgahópum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×