Innlent

Girðingarnar fjar­lægðar en lóðir stækkaðar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þessar girðingar á Sundlaugartúni verða fjarlægðar.
Þessar girðingar á Sundlaugartúni verða fjarlægðar. vísir/vilhelm

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar við Sundlaugartúnið, sem felur í sér lausn á Sundlaugartúnsmálinu svokallaða. Tillagan nær fram að ganga samþykki borgarráð deiliskipulagið.

Töluvert hefur verið fjallað um málið sem í stuttu máli snýst um það að á sínum tíma reistu eigendur húsa við Einimel 22 til 26 girðingu við lóðir sínar sem ganga að verulegu leyti inn á almannarými á Sundlaugartúni. Töluverðar deilur hafa skapast um málið.

Í febrúar var kynnt fyrirhuguð lausn á málinu, sem í fréttum var kallað „Salómonsdómur“ borgarinnar í málinu. Eldri girðingar, sem eru allt að 14 metrum inn á borgarlandi, verða fjarlægðar af starfsfólki Reykjavíkurborgar. Lóðareigendur við Einimel 18, 24 og 26 ætla aftur á móti að kaupa stika af borgarlandi og gera samning við borgaryfirvöld um það.

Tillagan felur það í sér að heimila það að lóðamörk lóðanna verði færð út um allt að 3,1 metra. Jafnframt er heimilað að stækka lóð nr. 26 lítillega út til norðurs í átt að gangstétt í borgarlandi. Lóðir nr. 20 og 22 gerðu ekki samning við Reykjavíkurborg um breytingar á lóðum sínum, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.

Tillagan var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar í gær. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vildu að afgreiðslu málsins yrði frestað en tillaga þess efnis var felld. Fulltrúar meirihlutans samþykktu umrædda tillögu, fulltrúi VG sat hjá en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn tillögunni.

Verður hún nú send borgarráði til umfjöllunar. Verði tillagan samþykkt þar mun deiliskipulagið taka gildi.


Tengdar fréttir

Segir af og frá að borgin hafi sam­þykkt land­töku hljóða­laust

Formaður skipulags- og samgöngunefndar segir af og frá að Reykjavíkurborg hafi samþykkt „landtöku“ hljóðalaust. Þvert á móti. Vesturbæingar eigi að gleðjast yfir fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi við Sundlaugartún og mikilvægt sé að sátt hafi náðst í málinu. 

„Salómons­dómur“ borgarinnar er að stækka einka­lóðir í Vestur­bæ

Mikil gremja er meðal margra Vesturbæinga vegna fyrirhugaðrar „lausnar“ á lóðadeilu í Vesturbænum, nánar tiltekið lóða sem standa við bakgarð einbýlishúsa við Einimel og svo Vesturbæjarlaugina. Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur vilja leysa áralanga deilu með því einfaldlega að stækka einkalóðirnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×