Innlent

Hvalur flæktist í hengingaról

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Hnúfubakur sem virðist hafa flækst í línu af veiðafærum.
Hnúfubakur sem virðist hafa flækst í línu af veiðafærum. Vísir/Bernharðs Stefán Bernharðsson

Hræ af hvalskálfi vakti athygli vegfaranda við ströndina við Innri Njarðvík í gær. Hvalurinn virðist hafa hafa flækst í línu af veiðarfærum og hlotið slæman dauðdaga.  

Hræið virðist vera af hnúfubaki en hann virðist hafa flækst í veiðarfærum með þeim afleiðingum að lína vafðist utan um höfuð hans. Fullorðnir hvalir syntu við hræið sem var farið að bólgna upp þegar myndir af því voru teknar. Hvalirnir syntu svo áleiðis á haf út. 

Bernharð Stefán Bernharðsson sem tók myndirnar á flygildi sagðist í samtali við fréttastofu að hann hefði verið á göngu við ströndina á Innri Njarðvík í gær þegar hann kom auga á svarta þúst á sjónum. Hann náði í flygildið og í ljós kom að þarna maraði dauður uppblásinn hvalur í kafi.

„Við nánari skoðun virtist þetta vera hvalskálfur sem virðist hafa verið flæktur í línu af neti eða línu veiðarfæri. Þetta var ekki falleg sjón að sjá og ljóst að hvalurinn hafði beðið slæman dauða í harðri glímu við þetta veiðarfæri sem virðist hafa vafist um höfuð hans eins og hengingaról,“ segir Bernharð í samtali við fréttastofu. 

Hann náði einnig myndum af fleiri hvölum sem syntu í kringum hræið. 

„Fjórir hvalir syntu skammt frá hræinu. Ætli þeir hafi ekki verið syrgja unga hvalinn sem maraði dauður þarna rétt hjá. Þeir syntu svo áleiðis á sjó út,“ segir Bernharð að lokum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×