Innlent

Íbúar á Íslandi nálgast 400 þúsunda markið hratt og örugglega

Jakob Bjarnar skrifar
Samkvæmt Hagstofunni bjuggu 387.800 manns á Íslandi í lok fjórða ársfjórðungs 2022: „199.840 karlar, 187.840 konur og kynsegin/annað voru 130.“
Samkvæmt Hagstofunni bjuggu 387.800 manns á Íslandi í lok fjórða ársfjórðungs 2022: „199.840 karlar, 187.840 konur og kynsegin/annað voru 130.“ vísir/vilhelm

Landsmönnum fjölgaði um 2.570 á fjórða ársfjórðungi nýliðins árs.

Þetta er samkvæmt tilkynningu sem finna má á vef Hagstofunnar. Þar kemur fram að samtals hafi 387.800 manns búið á Íslandi í lok fjórða ársfjórðungs 2022: „199.840 karlar, 187.840 konur og kynsegin/annað voru 130.“

Samkvæmt tilkynningu Hagstofunnar fjölgaði landsmönnum um 2.570 á ársfjórðungnum. Sé litið til skiptingar að teknu tilliti til búsetu er það svo að á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 247.590 manns en 140.210 á landsbyggðinni.

„Á fjórða ársfjórðungi 2022 fæddust 1.040 börn en 650 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 2.120 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 60 umfram aðflutta en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 2.170 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu,“ segir í tilkynningunni.

Brottfluttir Íslendingar fóru helst til Danmerkur en þangað fluttust 110 manns á umræddum ársfjórðungi.

„Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 230 íslenskir ríkisborgarar af 430 alls. Af þeim 1.150 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 340 manns.“

Flestir aðfluttir komu einnig frá Danmörku eða 140. Frá Noregi komu 40 og Svíþjóð 70. Pólland er hins vegar upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 720 til landsins af alls 3.320 erlendum innflytjendum. „Úkraína kom næst en þaðan fluttust 580 erlendir ríkisborgarar til landsins. Erlendir ríkisborgarar voru 65.090 eða 16,8% af heildarmannfjöldanum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×