Innlent

Bein útsending: Sérfræðingur fræðir Íslendinga um breytingaskeiðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ráðstefnan fer fram í Hörpu.
Ráðstefnan fer fram í Hörpu. Vísir/Vilhelm

Af hverju eru allir að tala um tíðahvörf og breytingaskeið kvenna? Hvaða áhrif hefur testósterón á kynlífið? Og er þetta bara þyngdaraukning og þras? Þessum spurningum og öðrum um breytingaskeiðið verður svarað á opnum fyrirlestri í Silfurbergi í Hörpu fimmtudaginn 19. janúar milli klukkan 17 og 19.

Að fyrirlestrinum standa Læknafélag Íslands, Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Kvenheilsa Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Feima, fræðslufélaga um breytingskeið kvenna.

Aðalfyrirlesari málþingsins er Dr. Louise Newson, sem er brautryðjandi í málefni breytingaskeiðsins í Bretlandi þar sem hún rekur víða móttökur fyrir konur á breytingaskeiði. Dr. Newson á stóran þátt í þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur um málefnið undanfarin ár, bæði í Evrópu en einnig hér á Íslandi.

Auk Newson mun sænski kvensjúkdómalæknirinn Angelique Flöter Rådestad, sem hefur sérþekkingu á áhrifum testósteróns á konur, flytja erindi um áhrif testósteróns á kynlíf kvenna. Að lokum mun Erla Gerður Sveinsdóttir, heimilislæknir og yfirlæknir Kvenheilsu Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins, fjalla um þyngdaraukningu á breytingaskeiði.

Fundarstjóri er Steinunn Zophoníasdóttir, ljósmóðir hjá Kvenheilsu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og stjórnarkona í Feimu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×