Erlent

Greta Thun­berg hand­tekin við mót­mæli í Þýska­landi

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Hér má sjá Thunberg borna burt af lögregluþjónum.
Hér má sjá Thunberg borna burt af lögregluþjónum. Getty/picture alliance

Umhverfisaðgerðarsinninn Greta Thunberg var handtekin í dag ásamt fleiri mótmælendum vegna mótmæla við kolanámu í Luetzerath í Þýskalandi. 

Reuters greinir frá þessu.

Aðgerðarsinnarnir eru saman komnir í þorpinu Luetzerath til þess að mótmæla niðurrifi þorpsins. Samkvæmt BBC stendur til að jafna þorpið við jörðu til þess að stækka kolanámu á svæðinu.

Til átaka hefur komið á milli óeirðalögreglu sem send var á svæðið og mótmælendanna síðustu daga. Greint hefur verið frá því að lögreglan hafi fjarlægt þrjú hundruð mótmælendur af svæðinu. Þá eru lögregluþjónarnir gagnrýndir fyrir að hafa beitt mótmælendur ofbeldi.

Hér má sjá Gretu Thunberg ávarpa mótmælendur síðatliðinn laugardag. Getty/Bernd Lauter

Lögregla og skipuleggjendur eru ekki sammála um þann fjölda mótmælanda sem hafa verið á svæðinu. Lögregla segir fimmtán þúsund mótmælendur hafa verið viðstadda en skipuleggjendur 35 þúsund.

Thunberg hefur tekið þátt í mótmælunum síðan á föstudaginn síðastliðin og var handtekin ásamt fleiri mótmælendum, sitjandi við brún námunnar. Thunberg var borin í burtu af svæðinu af þremur lögregluþjónum.

Reuters hefur eftir lögreglunni á svæðinu sem segir Thunberg hafa verið í hópi mótmælenda sem hljóp að brún námunnar og voru borin í burt til þess að gæta öryggis þeirra.

Þá kemur fram að einn mótmælandi hafi stokkið ofan í námuna en ekki kemur fram hvort eða hvernig hann sé slasaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×