Erlent

Stur­geon segir beitingu neitunar­valdsins árás

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Sturgeon segir Skota berjast gegn beitingu neitunarvaldsins.
Sturgeon segir Skota berjast gegn beitingu neitunarvaldsins. Getty/Pool

Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að beita neitunarvaldi sínu gagnvart skoska þinginu og lagafrumvarpi þess sem myndi gera fólki auðveldara fyrir að ákvarða og breyta eigin kynskráningu.

Frumvarpið sem lagt var fram af skotum var sagt ætlað til þess að einfalda of flókið og þungbært kynskráningarferli.

Þessu greinir BBC frá.

Þetta er í fyrsta sinn sem breska þingið beitir þessari heimild sinni og kemur beiting hennar í veg fyrir að frumvarpið geti orðið að lögum. Þá eru ráðherrar í Englandi sagðir hafa áhyggjur af því að frumvarpið gæti haft of mikil áhrif á jafnréttislög Bretlands í heild sinni.

BBC hefur eftir æðsta ráðherra Skota, Nicolu Sturgeon að notkun neitunarvaldsins væri hrein og bein árás á skoska þingið en þingheimur þar í landi myndi mótmæla beitingu valdsins.

Einnig er greint frá því að ráðherra Skota í bresku ríkisstjórninni, Alister Jack hafi þótt of mikill möguleiki á ruglingi og veseni ef tvö kynskráningarkerfi fengju að vera við lýði í landinu samtímis.

Þá hafi hann lýst yfir áhyggjum sínum vegna þeirra breytinga sem lögin gætu haft í för með sér á leyfi til þess að reka kynjaskipt félög og skóla og jöfn laun kynjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×